Sport

Ekki fíkniefnaneytandi

Ólafur Aron Ingvason, leikmaður Njarðvíkinga, gæti átt yfir höfði sér keppnisbann vegna neyslu á amfetamíni en samkvæmt fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld reyndust bæði A og B sýni jákvæð sem tekin voru eftir bikarúrslitaleik Njarðvíkur og Fjölnis sem fram fór 13. febrúar síðastliðinn. "Þetta voru bara ein mistök á einu fylleríi," sagði Ólafur Aron í samtali við Fréttablaðið. "Ég er ekki einhver fíkniefnaneytandi eða neitt þannig, alls ekki. Auðvitað sér maður eftir þessu."Ólafur hefur lítið sem ekkert leikið með Njarðvík síðan málið kom upp. "Það er ekkert komið úr þessu, það á eftir að dæma þetta og ekki komið alla leið." En hvað tekur við hjá Ólafi eftir að dómur hefur verið kveðinn upp? "Það getur verið að ég fari til pabba hans Brandon Woudstra [Earl Woudstra, er körfuknattleiksþjálfari í Northwestern College í Iowa] en það er ekki komið á hreint. Það er bara ein hugmynd. Ég verð náttúrulega að gera eitthvað. Það fer náttúrulega eftir því hvað ég fæ langt bann. Ef þetta er eitt ár eða meira þá verður maður að komast út. Bannið gildir ekki í Bandaríkjunum. Ég fer ekki að hanga hérna og spila ekki körfubolta. Maður verður að gera eitthvað."Ólafur var spurður hvernig honum hafi liðið eftir að málið kom upp. "Það var erfitt fyrst en fjölskyldan og vinirnir eru búnir að standa þétt við bakið á mér og það skiptir mig miklu máli. Þetta er búið að vera ágætt , þannig lagað. Ég hef fengið mikinn stuðning," sagði Ólafur Aron.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×