Sport

Rúnar á leið til Þórs

Handboltakappinn Rúnar Sigtryggson er samkvæmt heimildum Fréttablaðsins búinn að ná samkomulagi við Þór á Akureyri um að þjálfa liðið á næstu leiktíð og bendir allt til þess að samningur þess efnis verði undirritaður fyrir helgi. Með því mun Rúnar snúa aftur á fornar slóðir eftir áratuga spilamennsku í Reykjavík og síðar sem atvinnumaður á Spáni og í Þýskalandi, því hann á rætur að rekja til Akureyrar og hóf sinn handboltaferil með Þór. Rúnar gekk til liðs við þýska 1. deildar liðið Eisenach fyrir þetta tímabil og spilaði með liðinu framan af móti. Á miðju tímabili var honum síðan boðin staða aðalþjálfara félagsins eftir að forveri hans ákvað skyndilega að hætta störfum. Rúnar þjálfaði liðið þó ekki í langan tíma því hann fór sömu leið nokkrum vikum síðar vegna þess að hann var ósáttur með hvernig staðið var að hinum ýmsu málum innan félagsins. "Það gæti alveg endað þannig að hann skrifaði undir fyrir helgi," sagði Skapti Hallgrímsson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, í samtali við Fréttablaðið í gær en hann vildi þó sem minnst tjá sig um málið. "Þetta er á viðkvæmu stigi í augnablikinu og ég get ekkert staðfest," sagði Skapti. Rúnar hefur átt í viðræðum við nokkur lið síðan það spurðist út að hann væri líklega á heimleið. Í fyrstu benti margt til að hann myndi ganga til liðs við sitt gamla félag í Haukum en þar sem honum bauðst ekki staða aðalþjálfara þar ákvað Rúnar að leita á önnur mið. Grótta/KR, KA og Þór voru öll bendluð við hinn 33 ára gamla Rúnar en eins og áður segir bendir nú allt til þess að hann muni halda tryggð við sitt uppeldisfélag í Þór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×