Sport

Fannar öflugur

Íslenski landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson skoraði 15 stig og tók 12 fráköst á 21 mínútu í 94-87 sigri Ulm á Crailsheim Merlins í þýsku 2. deildinni í körfubolta um helgina. Ulm hefur nú unnið fjóra leiki í röð. Þetta var langbesti leikur Fannars með liðinu til þessa en þetta var aðeins í annað skiptið sem hann nær að leika yfir 20 mínútur. Mike Taylor, þjálfari Ulm, valdi Fannar mann leiksins á heimasíðu sinni og sagði hann hafa blásið liðsfélögum sínum kapp í brjóst með baráttu sinni eftir að hafa komið af bekknum. Fannar skoraði 12 stig og tók 9 fráköst í stórsigri á Kronberg í sínum öðrum leik hjá Ulm en eftir það fékk hann lítið að spreyta sig þar til hann spilaði stórt hlutverk í að landa góðum sigri um helgina. Ulm er sem áður segir í öðru sæti suðurhluta þýsku 2. deildarinnar, sex stigum á eftir liði Nürnberg. Fannar gekk til liðs við liðið í febrúarbyrjun og hefur nú leikið ellefu leiki með liðinu. Ulm hefur unnið níu þeirra, þar af tíu af síðustu ellefu leikjum. Fannar hefur spilað 12,2 mínútur að meðaltali í 2. deildinni í vetur og á þeim tíma hefur hann skorað 5,1 stig og tekið 3,2 fráköst að meðaltali í leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×