Sport

Mikill heiður fyrir Jón Arnór

Körfuknattleiksmanninum Jóni Arnóri Stefánssyni hjá Dynamo St. Petersburg í Rússlandi hlotnaðist á dögunum sá mikli heiður að vera valinn í Stjörnuleik FIBA Europe sem fram fer á Kýpur í dag. Jón komst á spjöld sögunnar þegar hann var á mála hjá Dallas Mavericks í hinni víðfrægu NBA-deild í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum síðan en er nú að brjóta blað í sögu íslenskra körfuknattleiksmanna, því aldrei áður hefur Íslendingur náð þeim árangri að vera valinn í Stjörnuleik FIBA Europe. Jón er einn þeirra bakvarða sem valinn var í úrval Evrópubúa en liðið mætir úrvali erlendra leikmanna í Stjörnuleiknum. Jón Arnór er fyrrum lærisveinn Benedikts Guðmundssonar, núverandi þjálfara Fjölnis í Intersportdeildinni, en Benedikt var mjög spenntur fyrir afreki Jóns. "Hann er ekki að keppa við dónalega menn enda mikið af stórum nöfnum sem leika í Evrópu sem hafa t.d. verið að banka upp á NBA-dyrnar," sagði Benedikt. "Þetta er mjög mikil viðurkenning fyrir Jón og hans mesta afrek í vetur." Varðandi framtíð Jóns sagðist Benedikt ekki eiga von á að kappinn myndi fara í NBA á ný nema að þar biði hans hlutverk sem hann gæti sætt sig við. "Chicago Bulls sýndi honum áhuga áður en hann sagði skilið við Dallas og þá er Don Nelson ennþá áhugasamur um að fá hann til sín á nýjan leik. Jón mun þó ekki fara nema að hann fái að spila. Hann myndi eflaust sætta sig við að vera annar leikstjórnandi einhvers liðs. Hann hefur það mjög gott í St. Pétursborg og þetta snýst náttúrulega ekki bara um peninga. Menn vilja að sjálfsögðu spila," sagði Benedikt. Stjörnuleikur FIBA er í beinni útsendingu á Sýn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×