Sport

Auglýst eftir mönnum á spjallborði

"Höttur í úrvalsdeild í fyrsta sinn - erum að leita að leikmönnum," segir á spjallborði sport.is. Það er ekki á hverjum degi sem að lið sést auglýsa eftir liðsauka með þessum hætti en að sögn Björgvins Karls Gunnarssonar, fyrirliða Hattar, þótti tilvalið að bregða á þetta ráð. "Það er oft sem kemur eitthvað út úr svona auglýsingu, þó svo að það sé misjafnt," sagði Björgvin, hæstánægður með að vera orðinn úrvalsdeildarleikmaður að nýju en hann lék á sínum tíma með ÍA og Skallagrími. "Stefnan hjá okkur er að halda okkur uppi í deildinni. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Allt annað er plús fyrir okkur." Björgvin Karl og félagar eru staðráðnir í því að búa til öflugt körfuboltavígi fyrir austan. "Við erum búnir að sýna það að við getum gert góða hluti. Við erum með frábæran heimavöll, atvinnumál hér eru í góðum farvegi og við viljum dreifa körfuboltanum út til fjarðanna hér í nágrenninu. Áhuginn fyrir körfuboltanum fer strax vaxandi og það voru 700 manns á síðasta heimaleik. Næsta lið við okkur sem hefur komið upp er Þór á Akureyri þannig að þetta er algjört einsdæmi." Höttur hefur haldið út liði í deildarkeppni í körfubolta í 20 ár en að öðru leyti hefur ekki farið mikið fyrir íþróttinni þar eystra. "Seyðfirðingar, Reyðfirðingar og fleiri nágrannar hafa verið að mæta á leiki og eru nemendur úr menntaskólanum þar mjög áberandi. Við sjáum því fram á mikinn uppgang í kringum körfuboltann," sagði Björgvin Karl, fyrirliði Hattar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×