Sport

Mikill heiður að vera valinn

Eins og fram kom á dögunum hefur Jón Arnór Stefánsson, leikmaður rússneska liðsins Dynamo St. Petersburg, verið valinn í Evrópuúrval Stjörnuleiks FIBA sem fram fer á Kýpur fimmtudaginn 14. apríl. Byrjunarliðin voru valin með netkosningu á heimasíðu evrópska körfuknattleikssambandsins en ekki hefur verið tilkynnt hvaða leikmenn nældu sér í sæti þar. "Þetta er náttúrulega gríðarlegur heiður fyrir mig að fá að spila í þessum leik," sagði Jón Arnór í samtali við Fréttablaðið. "Ég vil koma á framfæri miklu þakklæti til þeirra sem að kusu mig á Íslandi. Ég verð einn af bakvörðum Evrópuúrvalsins og þetta gæti orðið mjög góð auglýsing fyrir mig sem leikmann. Ég held af stað til Kýpur snemma í næstu viku og er mjög spenntur fyrir þessu." Aðspurður hvort einhverjar líkur væru á að kappinn myndi spreyta sig í troðslukeppninni, rak Jón upp hrossahlátur og sagði: "Við sjáum til. Ég væri frekar til í þriggja stiga keppnina." Jón þakkaði góðum árangri í Evrópukeppninni að hann hlaut útnefninguna. "Okkur hefur gengið mjög vel þar og erum taplausir enn sem komið er. Það styttist í undanúrslitin og við ætlum okkur að vinna titilinn. Ég er líka að spila töluvert meira núna en áður og hef því farið vaxandi með liðinu. Það hlýtur að hafa spilað inn í líka," sagði Jón Arnór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×