Sport

Grant Hill frá út tímabilið

Meiðsladraugurinn heldur áfram að þjaka Grant Hill, framherja Orlando Magic og nú þykir ljóst að hann muni ekki leika meira með liði sínu á þessari leiktíð. Hill hafði fyrir þetta tímabil lítið sem ekkert leikið í fjögur ár vegna ótal meiðsla á ökkla og þurfti hann að gangast undir fimm stórar aðgerðir á þeim tíma. Flestir ef ekki allir voru búnir að afskrifa möguleika hans á því að leika körfubolta framar, en Hill náði að afsanna allar hrakspár og snúa aftur í ár. Hann var auk þess valinn í stjörnuliðið í vetur og er endurkoma hans ein sú merkilegasta í sögu NBA deildarinnar. Hill lenti hinsvegar í því fyrir nokkru að fá þungt högg á legginn í leik gegn Miami og nú er ljóst að þessi meiðsli hans eru það alvarleg að læknar hafa ráðlagt kappanum að leika ekki meira á leiktíðinni af ótta við að gera illt verra. Hill tekur fréttunum með jafnaðargeði og segist fyrst og fremst feginn að ökklinn haldi. Þetta er liði Orlando mikið áfall, en það er í harðri baráttu um síðasta sætið inn í úrslitakeppnina í austurdeildinni, en fleiri lykilmenn hafa þurft frá að hverfa vegna meiðsla nýverið og möguleikar liðsins því frekar litlir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×