Sport

Keflavík kærir úrslitin

Stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur hefur lagt fram kæru vegna mistaka sem áttu sér stað í öðrum leik Keflvíkinga og Snæfells sem fram fór í Stykkishólmi í fyrrakvöld. Keflvíkingar vilja meina að löglega skoruð karfa þeirra hafi ekki verið talin og fara fram á að fjórði leikhluti leiksins verði leikinn að nýju og til vara að allur leikurinn fari fram aftur. "Við græðum sennilega ekkert á því að kæra þetta en hugsanlega yrði svona mál tekið fastari tökum í framtíðinni," sagði Birgir Már Bragason, varaformaður Keflavíkur. "Þetta er til háborinnar skammar og á ekki að þekkjast þegar komið er á þetta stig keppninnar," bætti Birgir við. "Svo hefði alveg mátt athuga hvort trúðurinn í rauðu jakkafötunum mætti leika lausum hala meðfram hliðarlínunni." Hannes Birgir Hjálmarsson, formaður KKÍ, staðfesti í samtali við Fréttablaðið að sambandinu hefði borist kæra frá Keflvíkingum. "Dómstóllinn tekur þetta fyrir en Snæfell getur komið með kröfur á móti. Þetta gæti haft áhrif á leikskipulag úrslitakeppninnar," sagði Hannes.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×