Sport

Úrslitin dæmd ógild?

Svo gæti farið að slæm mistök á ritaraborði í leik Snæfells og Keflavíkur í gærkvöld dragi dilk á eftir sér því tveggja stiga karfa, sem Jón Hafsteinsson skoraði fyrir Keflavík í lok þriðja leikhluta, var þurrkuð út. Snæfell vann reyndar með fjögurra stiga mun, 97-93, en Keflvíkingar hafa engu að síður ákveðið að leita réttar síns í þessu máli en að þeirra mati ætti að ógilda úrslit leiksins vegna þessara mistaka. Að sögn Hannesar Birgis Hjálmarssonar, framkvæmdastjóra KKÍ, geta Keflvíkingar kært framkvæmd leiksins og fer kæran þá fyrir dómstól KKÍ sem tekur málið strax fyrir. Hannes sagði að svipuð mál hefðu áður komið upp án þess að úrslitum leikja hefði verið breytt. Micahel Ames skoraði 22 stig fyrir Snæfell í gærkvöld en Nick Bradford 24 fyrir Keflavík sem hafði forystuna í fjórða leikhluta en Snæfell tryggði sér sigur með ævintýralegum lokaspretti og þriggja stiga körfu Sigurðar Þorvaldssonar í blálokin. Liðin mætast í þriðja sinn í Reykjanesbæ á fimmtudaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×