Sport

Fyrsti Suðurnesjaslagur kvenna

Keflavík og Grindavík hefja í kvöld leik í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta þegar Grindavík heimsækir Íslandsmeistara síðustu tveggja ára til Keflavíkur. Þetta er fyrsti Suðurnesjaslagurinn í 13 ára sögu úrslitakeppni kvenna en frá árinu 1991 hafa Suðurnesjalið spilað átta sinnum í lokaúrslitum karlakörfunnar. Keflavík og Grindavík hafa þrisvar sinnum spilað til úrslita í karlaflokki, Grindavík vann fyrsta einvígið 4-2 vorið 1996 en Keflavík hefur unnið tvö þau síðustu 3-0 (1997 og 2003). Keflavík hefur auk þess mætt Njarðvíkingum þrisvar sinnum í úrslitaeinvíginu og tvisvar sinnum hafa Njarðvík og Grindavík leikið um titilinn. Keflavíkurkonur eru nú í lokaúrslitunum í ellefta skiptið en aðeins tvisvar sinnum í sögu úrslitakeppni kvenna hafa úrslitin farið fram án Keflavíkurliðsins sem hefur unnið alls sjö Íslandsmeistaratitla eftir úrslitakeppni. Annað árið var þegar KR vann ÍS 3-2 fyrir þremur árum en hitt var í eina skiptið sem Grindavík hefur leikið í lokaúrslitnum eða vorið 1997. Grindavík sló þá út nágranna sína í Keflavík 2-0 í undanúrslitunum og vann síðan alla þrjá úrslitaleikina gegn KR þann seinasta í framlengingu í Hagaskólanum. Keflavíkurkonur hafa unnið úrslitaeinvígin 3-0 tvö síðustu ár, gegn KR 2003 og ÍS 2004 en það lið sem hefur unnið fyrsta leik lokaúrslitanna hefur fagnað Íslandsmeistaratitlinum í tíu af þeim tólf úrslitakeppnum sem eru að baki. Það var einungis árin 2000 og 2002 þar Íslandsmeistaranir unnu ekki fyrsta leikinn, KR tapaði 2-3 fyrir Keflavík eftir að hafa unnið fyrsta leikinn á heimavelli 51-48 vorið 2000 og ÍS tapaði 2-3 fyrir KR fyrir tveimur árum eftir að hafa unnið tvo fyrstu leiki einvígisins - báða eftir framlengingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×