Sport

Mjór en máttugur

Keflvíkingar unnu þrjá síðustu leiki sína í undanúrslitunum Intersportdeildarinnar í körfubolta gegn ÍR af miklu öryggi þar sem það var augljóst að Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára höfðu meiri breidd og miklu meiri orku til þess að spila á fullum krafti í þessum leikjum sem liðið vann samtals með 69 stiga mun eða 23 stigum að meðaltali. ÍR-ingar komu fullir sjálfstrausti inn í einvígið og unnu óvæntan baráttusigur í fyrsta leiknum í Keflavík en vöktu um leið Keflavíkurhraðlestina sem var ekki stöðvuð eftir að hún komst af stað. Það eru margir kallaðir í Keflavíkurliðinu þegar kemur að því að útnefna bestu og mikilvægustu leikmenn liðsins en einn sá allra mikilvægasti er sjáldnast áberandi í stigaskorunni en skilar hlutverki sínu í liðinu af sérstakri ósérhlífni og með smitandi baráttu. Jón Nordal Hafsteinsson sýndi og sannaði sig sem lykilmann Keflavíkur í einvíginu gegn ÍR. Hann komi inn í byrjunarliðið þar sem fyrirliðinn Gunnar Einarsson meiddist í átta liða úrslitunum, spilaði frábærlega í vörninni og elti uppi alla lausa bolta auk þess að skila sínu í sóknarleiknum. Það er oft erfitt að meta áhrif einstakra leikmanna á gengi liðsins en ein leiðin er að skoða gengi liðsins þegar ákveðinn leikmaður er inn á vellinum. Það kemur kannski ekki aðdáenum "Jonna" á óvart að Keflavíkurliðinu gekk best með hann inná. Keflavík vann þannig þær 92 mínútur og 7 sekúndur sem strákurinn spilaði í einvíginu með 69 stigum, 213-144, en tapaði hinsvegar þeim 67 mínútum og 53 sekúndum sem liðið lék án hans með 8 stigum, 159-167. Jón Nordal var annar tveggja leikmanna liðsins þar sem Keflavík tapaði þeim tíma sem þeir sátu á bekknum en hinn er Anthony Glover en liðið tapaði þeim rúmu 43 mínútum sem það var án hans með 5 stigum. Keflavík vann alla leikina fjóra með "Jonna" inná, meðal annars þann fyrsta með þremur stigum (53-50) en ÍR vann hann eins og áður sagði með átta stiga mun. Jón Nordal var einnig sá íslenski leikmaður sem skilaði mestu til síns liðs í einvíginu samkvæmt NBA-framlagsjöfnunni en hann var með 7,8 stig og 6,3 fráköst að meðaltali á þeim 22,5 mínútum sem að spilaði í leik auk þess að nýta skotin sín 56%. Jón tók flest sóknafráköst allra í einvíginu (17 eða 4,3 í leik) og aðeins Nick Bradford (21) var með fleiri stopp í einvíginu en Jón stal 8 boltum og varði 7 skot í leikjunum fjórum. Það skoruðu kannski níu leikmenn í einvíginu fleiri stig en Jón Nordal Hafsteinsson en það er samt mjög erfitt að finna mikilvægari leikmann en hinn 24 ára framherja Keflavíkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×