Sport

Helena fyrsta Scania-drottningin

Helena Sverrisdóttir, 17 ára körfuknattsleikkona úr Haukum, varð í kvöld fyrst íslenskra körfuknattleikskvenna til þess að vera valin Scania-drottning, það er besti leikmaður síns árgangs í óopinberu Norðurlandamóti félagsliða, Scania Cup. Það dugði þó ekki Haukum sem töpuðu úrslitaleiknum fyrir heimamönnum í SBBK, 55-62. Haukakonur náðu bestum árangri íslenskra liða á mótinu þegar þær komust í úrslitaleikinn í unglingaflokki kvenna en 9. flokkur KR tapaði fyrir sænska liðinu Polisen í kvöld í undanúrslitunum og spilar um 3. sætið á morgun. 8. flokkur Fjölnis er einnig meðal sex efstu en lðið spilar um 5. sætið við danska liðið Hörsholm á lokadegi mótsins sem fer fram á morgun, páskadag. Heimamenn í SBBK unnu alla sína leiki og áttu þrjá leikmenn í úrvalsliði unglingflokks kvenna (stelpur fæddar 1987 og 1988), systurnar Fridu og Elinu Eldebrink og svo Emmu Skarle en auk þeirra og Helenu var í úrvalsliðinu Anne Delauren hjá danska liðinu Åbyhöj sem Haukar slógu út í átta liða úrslitunum. Helena er 13. Íslendingurinn sem hlýtur þessa viðurkenningu en fyrstu tólf bestu leikmenn Scania Cup voru allt strákar þar af hafa þeir Herbert Arnarson, Jón Arnar Ingvarsson og Jón Arnór Stefánsson allir verið valdir tvisvar. Scania-kóngar og drottningar Íslands: 2 - Herbert Arnarson, ÍR (1985, 1986) 2 - Jón Arnar Ingvarsson, Haukum (1986, 1988) 2 - Jón Arnór Stefánsson, KR (1996, 1998) 1 - Márus Arnarson, ÍR (1988) 1 - Sæmundur Oddsson, Keflavík (1995) 1 - Ásgeir Ásgeirsson, Grindavík (1996) 1 - Hreggviður Magnússon, ÍR (1997) 1 - Hjörtur Hrafn Einarsson, Njarðvík (2003) 1 - Ragnar Ólafsson, Njarðvík (2004) ) 1 - Helena Sverrisdótir, Haukum (2005)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×