Sport

Verða þeir aftur endurræstir af ÍR

Þeir sem urðu vitni af frábærum 26 stiga sigri Keflvíkinga í Seljaskólanum í undanúrslitum úrslitakeppni Intersportdeildarinnar á mánudagskvöldið eru örugglega margir á því að þar fari verðandi Íslandsmeistarar mæti Keflavíkurliðið jafneinbeitt og ákveðið til leiks það sem eftir líður úrslitakeppni. Í stað þess að komast í 2-0 eru ÍR-ingar komnir aftur á byrjunarreit og þurfa að vinna aftur í Keflavík þar sem Keflvíkingar höfðu unnið 13 leiki í röð í úrslitakeppninni fyrir sigur ÍR á Sunnubrautinni um síðustu helgi. Keflvíkingar hafa mikla reynslu frá úrslitaleikjum síðustu ár, ómetanlega reynslu úr úrslitakeppninni og stóra og mikla stuðningssveit sem setti mikinn svip á Seljaskólann í fyrrakvöld. Það er ekki langt síðan tap fyrir ÍR endurræsti einbeitingu og sigurvilja Keflavíkurliðsins, sem var þá eins og nú undir stjórn hins sigursæla þjálfara Sigurðar Ingimundarsonar. Fyrir tveimur árum unnu ÍR-ingar "óvæntan" 17 stiga sigur sigur á Keflavík í öðrum leik átta liða úrslitanna í Seljaskóla og tryggðu sér oddaleik í Keflavík tveimur dögum síðar. Líkt og Seljaskóla í fyrrakvöld komu Keflvíkingar gríðarlega einbeittir í þriðja leikinn, ÍR-ingar byrjuðu reyndar ágætlega og voru yfir 15-11 eftir 5 mínútna leik en þá hófst ein rosalegasta skotsýning sem hefur farið fram á fjölum Íþróttahússins við Sunnubraut. Keflavíkurliðið vann síðustu 15 mínútur hálfleiksins með 46 stigum, 59-13. Á þessum kafla skoraði Keflavíkurliðið meðal annars 12 þriggja stiga körfur og leiddi með 42 stigum í hálfleik, 70-28. Keflavík vann leikinn á endanum með 31 stigi og leit ekki um öxl í úrslitakeppninni. Liðið vann alls sjö leiki í röð, skoraði yfir 100 stig í þeim öllum og burstaði bæði Njarðvík (3-0) og Grindavík (3-0) og vann Íslandsmeistaratitilinn. Hver veit nema Breiðhyltingar hafi kveikt neistann á ný í Keflavíkurhraðlestinni með því að vinna þá í Keflavík á laugardaginn var, því svar liðsins í Seljaskóla minnti mikið á leik Keflavíkurliðsins fyrir tveimur árum þegar þeir settu met með því að vinna sjö leiki í röð í einni úrslitakeppni. Næsti leikur fer fram í Keflavík á laugardaginn og þar er að sjá hversu sterkir ÍR-ingar eru, því það er ekki á færi margra liða að vinna tvo leiki í röð í Keflavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×