Sport

Shaq 2 - Kobe 0

Shaquille O´Neal og félagar í Miami Heat áttu ekki í miklum vandræðum Los Angeles Lakers í NBA-körfuboltanum í nótt. O´Neal mætti þar fyrrum samherja sínum, Kobe Bryant, í annað sinn á tímabilinu en liðin mættust á heimavelli Lakers í desember þar sem gestirnir höfðu betur.   Það sama var upp á teningnum í nótt og í seinni hálfleik hafði Heat leikinn alfarið í hendi sér og uppskar 13 stiga sigur, 102-89. Dwyane Wade var stigahæstur á vellinum með 27 stig, 8 fráköst, 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta. O´Neal skoraði 25 stig, tók 12 fráköst og varði 4 skot. "Þessi leikur er nú ekki hátt metinn hjá mér, hann færi í mesta lagi á topp 2000 listann," sagði O´Neal eftir leikinn. "Þetta var leikur góðs liðs við lið sem er svona lala," bætti Shaq við. Þetta var þriðji tapleikur Lakers í röð.   O´Neal var spurður út í samband sitt við Kobe Bryant á árum sínum hjá Lakers. "Mér gæti ekki verið meira sama um hvaða samband sem er. Ég á ekki í neinu sambandi við nokkurn mann. Leikurinn í kvöld var bara afrek á leið okkar til takmarksins sem við viljum ná. Okkur er alveg sama hvern við þurfum að fara í gegnum."   Stan Van Gundy, þjálfari Heat, skeytti lítið um hvort Bryant og O´Neal hefðu eitthvað átt spjall saman fyrir leikinn. "Heilsuðust þeir? Gáfu þeir hvor öðrum faðmlag? Hverjum er ekki sama, þetta er körfuboltaleikur," sagði Van Gundy. Þetta var 11. sigurleikur Heat í röð og liðið mætir New York Knicks annað kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×