Sport

Waller sendur aftur til sín heima

Haukar hafa rekið John Waller, annan bandaríska leikmann liðsins, í Intersportdeildinni í körfubolta og leita nú að nýjum leikmanni í hans stað en liðið er komið niður í harða fallbaráttu og mætir næst Keflavík á Ásvöllum á sunnudaginn. Waller sem lék vel fyrir jól og var meðal annars efstur í þriggja stiga skotnýtingu í deildinni eftir fyrri umferðina hefur verið nánast óþekkjanlegur á nýja árinu. Meðalskorið hans hefur meðal annars lækkað um 10 stig í leik, hann er að hitta 27% verr úr skotum sínum og þá var hann að leggja til liðsins aðeins 36% af því sem hann gerði í 11 leikjum liðsins fyrir jól. Á heimasíðu Haukanna kemur eftirfarandi fram um málið. "John lék mun betur fyrir áramót en hann hefur gert í janúar og ekki lagt sig nægjanlega fram í að laga alvarlega stöðu liðsins. Niðurstaðan er því að John hættir að leika með liðinu og hverfur heim á leið á allra næstu dögum. Nú þegar verður farið í að leita að leikmanni í staðinn fyrir John," segir á síðunni en Haukar hafa tapað þremur af fjórum leikjum sínum eftir áramótin og þar á meðal báðum heimaleikjum sínum á Ásvöllum. Haukar höfðu fyrir það unnið 18 af 21 leik á heimavelli sínum í Hafnarfirði. Waller er annar leikmaðurinn sem Haukar senda heim í vetur en Damon Flint fór sömu leið í jólafríinu. John Waller - allt annar maður eftir jól Stig í leik: 23,4 - 13,0 (-10,4) Framlag í leik: 26,7 - 9,5 (-17,2) Skotnýting: 53% - 26% (-27%) 3ja stiga körfur í leik: 3,0 - 1,0 (-2,0) 3ja stiga nýting: 50% - 15% (-35%)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×