Sport

Gott ár að baki hjá Keflavík

Það er ótrúlega sigursælt ár að baki hjá kvennaliði Keflavíkur í körfunni því þær unnu alla fimm titla ársins og töpuðu aðeins einum af 35 leikjum sínum í deild, meistarakeppni, bikarkeppnum og úrslitakeppni. Keflavíkurliðið er því með 97% sigurhlutfall á árinu og þar af vann liðið þrjátíu af leikjunum með tíu stigum eða meira. Eina tapið á árinu kom í Grindavík í undanúrslitum úrslitakeppninnar í vor og það var reyndar þjálfaranum dýrkeypt því í kjölfarið var Hirti Harðarsyni sagt upp störfum. Sigurður Ingimundarson tók þá við liðinu sem vann fjóra síðustu leiki úrslitakeppninnar og fagnaði Íslandmeistaratitinum. Sverrir Þór Sverrisson tók síðan við Keflavíkurliðinu í sumar og liðið hefur unnið alla 16 leikina undir hans stjórn í vetur og alla með 11 stigum eða meira. Það virtist skipta engu þó að tvær af leikreyndustu leikmönnum liðsins, Erla Þorsteinsdóttir og Erla Reynisdóttir, færu yfir til Grindavíkur því í þeirra stað hafa komið inn tvær ungar og stórefnilegar stúlkur, Bryndís Guðmundsdóttir og María Ben Erlingsdóttir, sem hafa leikið mjög vel í vetur. Keflavík hefur meðal annars unnið þrjá leiki sína gegn Grindavík með samtals 79 stiga mun en Grindavík er einmitt í öðru sæti í deildinni eftir fyrri umferðina. Keflavík varð í vor fyrsta liðið í tíu ár til þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn án liðsstyrks frá útlöndum en í vetur hefur liðið notið krafta Resheu Bristol sem er efst í stoðsendingum (7,1 í leik) og stolnum boltum (7,2) í deildinni og illviðráðanleg fyrir önnur lið deildarinnar enda einnig með 21,9 stig og 7,8 fráköst að meðaltali í leik. Leikir Keflavíkur á árinu: Deildin: 20 sigrar - 0 töp Úrslitakeppni: 5 sigrar - 1 tap Bikarkeppni: 4 sigrar - 0 töp Hópbílabikar: 4 sigrar - 0 töp Meistarakeppni: 1 sigur - 0 töp Sigrar Keflavíkurliðsins 2004: 0 til 9 stiga sigrar: 4 leikir 10 til 19 stiga sigrar: 8 leikir 20 til 29 stiga sigrar: 8 leikir Stærri en 30 stiga sigrar: 14 leikir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×