Sport

13 stig í forgjöf hjá Keflvíkingum

Keflavík sækir portúgalska liðið CAB Madeira heim í bikarkeppni Evrópu í körfuknattleik í kvöld. Liðin mættust á heimavelli Keflvíkinga 10. nóvember sl. og unnu heimamenn öruggan sigur, 114-101. Madeira hefur ekki staðið undir væntingum í keppninni og aðeins unnið tvo leiki, tapað þremur og vermir botnsæti riðilsins fyrir leikinn í kvöld. Liðið tapaði mjög óvænt fyrir franska liðinu Reims í fyrrakvöld og minnkaði þar með möguleika sína á að komast áfram í úrslitakeppnina. Ef Keflavíkurliðið ber sigur úr býtum tryggir það sér annað sæti riðilsins og er öruggt áfram. Madeira þarf hins vegar að leggja Keflavík með meira en 13 stiga mun til að næla sér í annað sætið. Í síðasta leik mætti Keflavík besta liði riðilsins, hinu danska Bakken Bears, og hafði ekki erindi sem erfiði þar sem Bears vann öruggan sigur, 104-90. Þar voru lykilmenn á borð við Nick Bradford og Gunnar Einarsson langt frá sínu besta og munaði um minna fyrir Keflavík, sem missti þar með af fyrsta sæti riðilsins. Tapi Keflvíkingar með meira en 13 stiga mun í kvöld á liðið engu að síður möguleika á að komast áfram þar sem tvö bestu liðin í þriðja sæti riðlanna tryggja sér áframhaldandi þátttöku. Möguleikar liðsins eru því ágætir þó svo að á móti hafi blásið í síðasta leik. Hægt er að fylgjast með leiknum á heimasíðu Keflvíkinga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×