Sport

Tvö stór töp í röð hjá Snæfelli

Snæfellingar töpuðu með 19 stigum fyrir nýliðum Fjölnis í Grafarvogi í Intersportdeildinni í fyrrakvöld og hafa því tapað tveimur síðustu leikjum sínum með 35 stigum, fyrst 86-102 fyrir Keflavík í bikarnum á sunnudagskvöldið og svo 81-100 fyrir Fjölni.  Byrjun Snæfellsliðsins var þó ekki slæm í Grafarvoginum því liðið var komið með 17 stiga forskot, 29-12, eftir níu mínútna leik en svo var eins og leikur liðsins hrundi og liðið tapaði síðustu 31 mínútunni í leiknum með 36 stigum, 52-88. Fjölnismenn skoruðu fimm síðustu stig fyrsta leikhlutans og unnu síðan annan leikhluta með 16 stigum, 26-10, og náðu því frumkvæði sem þeir héldu út leikinn. Í báðum þessum stóru töpum hefur Bárður Eyþórsson þurft að hvíla einn sinna leikmanna vegna þess að félagið fór yfir launaþakið og í báðum þessm leikjum hefur hann ekki fengið stig frá bekknum. Byrjunarliðið hefur hefur þannig hvílt samtals í 46 mínútur en varamennirnir hafa misnotað þau þrjú skot sem þeir hafa tekið á tíma sínum inná vellinum og það er ljóst að með engri breidd á Snæfellsliðið ekki möguleika á að bæta við titlum í vetur. Það er ljóst að það reynir mikið á karakter Hólmara þessa daganna því eftir einstaka sigurgöngu á þessu ári þarf sameinað átak til að koma Snæfellsskútunni aftur á réttan kjöl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×