Innlent

Ók lyfjadofinn á lögreglu

Héraðsdómur Suðurlands hefur svipt 41 árs gamlan mann ökuréttindum í eitt ár og gert honum að greiða hundrað þúsund krónur fyrir umferðarlagabrot. Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi á vegarkafla við Litlu-Kaffistofuna ekið á öfugum vegarhelmingi móti ómerktri lögreglubifreið, þannig að ökumaður hennar varð að aka út fyrir veginn. Þetta aksturslag viðhafði maðurinn margoft á leiðinni að hringtorginu við Hveragerði þannig að fjöldi ökumanna þurfti frá að víkja. Við Hveragerði sinnti maðurinn ekki stöðvunarmerkjum lögreglunnar á Selfossi og ók á kyrrstæða bifreið lögreglu. Maðurinn er sagður hafa verið undir áhrifum deyfandi lyfja og ekki með handbært gilt ökuskírteini. Frá árinu 1991 hefur maðurinn sætt viðurlögum fyrir þjófnaði og umferðarlagabrot. Með brotinu, sem átti sér stað 15. maí í fyrra, rauf maðurinn skilorð. Í dómnum kemur fram að dómsuppkvaðning hafi dregist vegna embættisanna dómarans, Hjartar O. Aðalsteinssonar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×