Innlent

„Koma ein­hverjir strákar og svo fer allt í háa­loft“

Tómas Arnar Þorláksson og Eiður Þór Árnason skrifa
Árásin átti sér stað við Hafnafjarðarveg.
Árásin átti sér stað við Hafnafjarðarveg. Vísir/vilhelm

Tvenn ungmenni réðust á karlmann á fimmtugsaldri við strætóbiðstöð við Hafnarfjarðarveg til móts við Aktu taktu skömmu fyrir miðnætti í gær. Málið er rannsakað sem stórfelld líkamsárás. Brotaþoli var fluttur á slysadeild en lítið er vitað um líðan mannsins.

Hópur fjögurra til sex ungmenna á aldrinum sextán til sautján ára var á staðnum en tveir tóku þátt í árásinni, að sögn lögreglu. Þrír eða fjórir lögreglubílar voru sendir á vettvang og einn handtekinn. Honum var sleppt að lokinni yfirheyrslu.

„Ég held að hann hafi bara verið þarna að bíða eftir strætó og þau komið þarna og svo hafi eitthvað kastast í kekki á milli þeirra,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn en tekur fram að enn eigi eftir að ræða frekar við vitni.

Spjallað við stelpur

„Það hefur verið einhver lítill neisti sem kveikti þetta bál.“ Ekki sé vitað til þess að tengsl séu milli brotaþola og árásarmannanna. Þeir hafi ekki notast við vopn eða barefli.

„Hann fer að spjalla við einhverjar stelpur og svo koma einhverjir strákar og svo fer allt í háaloft,“ bætir Jóhann við.

Málið sé nú til rannsóknar sem stórfelld líkamsárás og barnaverndaryfirvöld komi að málinu. Jóhann var ekki með upplýsingar um líðan mannsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×