Innlent

Gengst við skila­boðunum um­deildu

Eiður Þór Árnason skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir svaraði fyrir meint skilaboð sín í Pallborðinu á Vísi í dag.
Heiða Björg Hilmisdóttir svaraði fyrir meint skilaboð sín í Pallborðinu á Vísi í dag. Vísir/Vilhelm

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri og annað oddvitaefna Samfylkingarinnar í Reykjavík, gengst við því að hafa sent skilaboð á kjósanda þar sem hún sagði mótframbjóðanda sinn Pétur Marteinsson frægan karl með enga reynslu. Hún biður Pétur afsökunar en fyrr í dag sagðist hún ekki muna eftir því að hafa sent umrædd skilaboð. 

„Sæl kæra […] nú er prófkjör í Samfylkingu á laugardaginn og það er óvenju opið og mikið verið að smala fólki til þátttöku,“ segir í skilaboðunum sem voru sýnd áhorfendum Pallborðsins.

„Þetta kostar ekkert og ef fólki vil [sic] getur það skráð sig úr félaginu aftur eftir helgina. Mér finnst þetta mjög erfið barátta þar sem karl með enga reynslu en færægur [sic] á að koma í stað mín. Ég óttast um okkar mál og áherslur. Mig langar því að biðja um þinn stuðning og sendi þér hlekk á skráningu í von um að þú takir þátt. Hlý kveðja Heiða.“

Svo hljóðuðu skilaboð sem Heiða sendi frá sér í von um að fá kjósanda til að skrá sig í Samfylkinguna í Reykjavík og veita henni atkvæði sitt.  

„Eftir allmikla leit verð ég að gangast við að hafa sent þennan póst fyrr í vikunni. Ég hef það eitt mér til afsökunar að á undanförnum 3 vikum hafa líklega þúsundir skilaboða farið frá mér til félaga í flokknum, auk vina og kunningja.

Þegar ég var fyrst spurð um málið kannaðist ég ekki við að hafa sent umrædd skilaboð og kannaðist ekki við nema brot af textanum. Og sá ekki til hverrar hann var. En hef nú fundið skilaboðin sem eru hluti af lengra samtali milli mín og þeirrar sem fékk póstinn frá mér. Sú hefur ávallt deilt skoðunum mínum á jafnréttismálum og taldi ég um einkasamtal að ræða okkar á milli. Í póstinum vísa ég í áhyggjur mínar af jafnréttisbaráttunni,“ segir Heiða í færslu á Facebook-síðu sinni og heldur áfram: 

„En þetta var kapp án forsjár, því ég vil ekki tala niður aðra frambjóðendur í minni baráttu. Ég bið Pétur Marteinsson afsökunar og hef einsett mér að gera betur.“

Fréttin er í vinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×