Innlent

Tímamótaviðræður í Abú Dabí

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir frið verða að koma á forsendum Úkraínu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir frið verða að koma á forsendum Úkraínu. Vísir/anton brink

Utanríkisráðherra bindur vonir við að tímamótaviðræður sendinefnda Úkraínu, Bandaríkjanna og Rússlands í Abú Dabí skili árangri. Mikilvægt sé þó að fullveldi Úkraínu verði virt og friðurinn verði raunverulegur og ekki á forsendum Rússa.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu funduðu í gær í Davos í Sviss í aðdraganda viðræðnanna.

Sendinefndir ríkjanna þriggja hittust svo í borginni Abú Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag en lítið hefur þó frést af gangi mála þar.

Ekki fundað með þessum hætti síðan innrásarstríðið hófst

Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ríkjanna þriggja funda saman til að finna leið í átt að friði en nær fjögur ár eru nú liðin frá allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu.

Það má sannarlega segja að mikið sé í húfi en væntingarnar til fundarins eru þó hóflegar. Viðræðurnar hafa til að mynda ekki dregið úr árásum Rússa á Úkraínu.

Þá hafa yfirlýsingar ráðamanna í ríkjunum þremur undanfarið ekki verið til þess fallnar að vekja bjartsýni um árangur af viðræðunum. Stjórnvöld í Moskvu hafa til að mynda ítrekað lýst því yfir að friður komist ekki á fyrr en Úkraínumenn hörfi frá stóru og víggirtu svæði í austurhluta Úkraínu, Donbass-svæðinu, sem Rússar vilja stjórna. Úkraínumenn hafa útilokað það.

Ísland átti frumkvæði að fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra er stödd í Genf þar sem hún ávarpaði í dag mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna á sérstökum aukafundi sem haldinn var að frumkvæði Íslendinga vegna stöðu mannréttinda í Íran og mótmæla þar í landi. Hún hefur verið í sambandi við kollega sína vegna fundarins í Abú Dabí.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði nýverið Evrópu þurfa að breytast og það hratt.AP/Markus Schreiber

„Auðvitað bindum við vonir við það að samtöl skili sér. En ég undirstrika afstöðu Íslands, Norðurlandanna og Evrópu í þá veru að við þurfum frið í Úkraínu en friðurinn verður þá að vera langvarandi og hann verður að vera réttlátur og hann verður að virða fullveldi Úkraínu og sjálfsákvörðunarrétt Úkraínu í þá veru og við vitjum alveg hvað Úkraína vill. 

Úkraína vill verða aðili að NATO. Úkraína vill vera aðili að Evrópusambandinu til að treysta sitt fullveldi en Úkraína vill fyrst og síðast frið. Þá verðum við að tryggja friðinn með þeim hætti að það verði raunverulegur friður en ekki friður á forsendum Rússa. Það myndi ekki ganga,“ segir Þorgerður. 

Mikilvægt sé að Úkraínumenn upplifi stuðning.

„Þetta reynir á alþjóðasamfélagið og Guð minn góður reynir á þrýstinginn á Selenskí. Þetta er rosalegt verkefni sem hann stendur frammi fyrir og þess þá heldur þurfum við að láta hann finna að lýðræðislega þenkjandi ríki sem tala fyrir mannréttindum og frelsi styðja hann til skemmri og lengri tíma,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.


Tengdar fréttir

Rússar, Úkraínumenn og Bandaríkjamenn funda í fyrsta sinn við sama borð

Fulltrúar Rússlands, Úkraínu og Bandaríkjanna eru nú sagðir ætla að halda samningafund í Sameinuðu arabísku furstadæmunum um stríðið í Úkraínu og mögulegt vopnahlé. Fundurinn fer fram í dag og er um að ræða fyrstu viðræðurnar frá innrás Rússa fyrir hartnær fjórum árum þar sem Rússar og Úkraínumenn sitja við sama borð ásamt Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×