Erlent

Trump fer í fýlu og dregur boð sitt til Carney til baka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump og Carney þegar betur fór á með þeim.
Trump og Carney þegar betur fór á með þeim. Getty/Anna Moneymaker

Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist hafa dregið til baka boð sitt til Kanada um sæti í svokallaðri „Friðarstjórn“, ef marka má færslu forsetans á Truth Social í nótt.

Trump ávarpar Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, og segist vera að draga boð sitt til baka, þess efnis að Kanada fái sæti í stjórninni. Stjórn leiðtoga, segir hann, sem sé sú virðingarverðasta sem nokkurn tímann hafi verið mynduð.

Carney hafði áður sagt að Kanada myndi þiggja sætið, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kanada myndi til að mynda ekki greiða milljarð Bandaríkjadala fyrir varanlegt sæti, eins og Trump hefur lagt upp með, og þá vildu Kanadamenn ræða verksvið stjórnarinnar og útfærsluatriði.

Leiða má líkur að því að ákvörðun Trump um að draga boðið til baka tengist ræðu Carney á World Economic Forum í Davos í vikunni, sem vakti athygli út um allan heim og var lofuð fyrir raunsanna lýsingu á stöðu heimsmálanna á tímum Donald Trump, án þess þó að minnst væri á forsetann.

Trump hefur á sama tíma verið gagrýndur fyrir miður góða frammistöðu í Davos, þar sem hann óð úr einu í annað í langri og þreytulegri ræðu sinni.

Bretar, Frakkar og Ítalir eru meðal þeirra þjóða sem hafa afþakkað boð Trump í bili, enda virðist stofnun stjórnarinnar ekki lengur snúast um frið og uppbyggingu Gasa, heldur tilraun til að grafa undan Sameinuðu þjóðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×