Erlent

Bein út­sending: Trump kynnir friðarráðið

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump á sviði í Davos í morgun.
Donald Trump á sviði í Davos í morgun. AP/Evan Vucci

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar að kynna svokallaða friðarráð sitt á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss í dag. Ráð þetta þykir nokkuð umdeilt en það átti upprunalega að halda utan um málefni Gasastrandarinnar. Nú er útlit fyrir að Trump vilji að það leysi Sameinuðu þjóðirnar af hólmi.

Miklar efasemdir eru uppi um friðarráð Trumps og sérstaklega, að virðist, í Evrópu, en ráðamenn fárra Evrópuríkja virðast tilbúnir til að ganga til liðs við ráðið.

Kynningin hófst klukkan rétt rúmlega tíu og má sjá hana í beinni útsendingu hér að neðan.

Fréttin verður uppfærð.

Hugmyndin um friðarráðið stakk fyrst upp kollinum í tuttugu liða friðaráætlun Trump-liða varðandi átökin á Gasaströndinni en sú áætlun fékk stuðning öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Síðan þá hefur hugmyndin undið upp á sig og hefur Trump talað um að ráðið eigi að koma að því að stuðla að friði í heiminum. Fyrr í vikunni var hann spurður hvort hann sæi fyrir sér að friðarráðið ætti að leysa Sameinuðu þjóðirnar af hólmi sagði hann að svo gæti vel farið.

Hann gagnrýndi Sameinuðu þjóðirnar, eins og hann hefur lengi gert.

Beðið eftir kynningu friðarráðs Trumps í Davos.AP/Markus Schreiber

Starfsmenn Trumps í Hvíta húsinu segjast eiga von á því að þrjátíu ríki gangi til liðs við friðarráðið og að um fimmtíu hafi verið boðið sæti.

Samkvæmt AP fréttaveitunni er vitað til þess að ráðamenn í Argentínu, Armeníu, Aserbaídsjan, Barein, Belarús, Egyptalandi, Ungverjalandi, Indónesíu, Jórdaníu, Kasakstan, Kósóvó, Marokkó, Pakistan, Katar, Sádi-Arabíu, Tyrklandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Úsbekistan og Víetnam, hafi samþykkt að taka þátt í friðarráðinu.

Önnur ríki sem vitað er að hafa fengið boð í ráðið eru Frakkland, Noregur, Slóvenía, Svíþjóð, Bretland, Kambódía, Kína, Króatía, Þýskaland, Ítalía, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Paragvæ, Rússland, Singapúr og Úkraína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×