Innlent

Kjós­endur Flokks fólksins ekki fyrir framan tölvu alla daga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kolbrún Baldursdóttir hefur ekki áhyggjur af fylgi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir hefur ekki áhyggjur af fylgi Flokks fólksins. Vísir/Vilhelm

Fylgi Flokks fólksins er ekki áhyggjuefni að mati þingmanns flokksins sem telur ekki víst að kjósendur flokksins svari skoðanakönnunum í gegnum vefinn. Hún segist stolt af verkum flokksins og minnir á að stutt er liðið á kjörtímabilið.

Greint var frá því í gær að Flokkur fólksins mælist annan mánuðinn í röð utan þings í könnun Maskínu. Ríkisstjórnarflokkurinn mælist nú með 4,3 prósenta fylgi en mældist fyrir mánuði síðan með 4,8 prósent. Þar áður var flokkurinn með 5,6 prósenta fylgi í nóvember. Kolbrún Baldursdóttir þingmaður flokksins telur tíðindin ekki áhyggjuefni.

Klippa: Hefur ekki áhyggjur af fylgi Flokks fólksins

Ekki nýtt fyrir flokkinn

„Þetta eru náttúrulega búnar að vera svona tölur að undanförnu en við höfum engar áhyggjur af þessu, þetta er ekkert nýtt fyrir okkur í Flokki fólksins að mælast lágt en síðan vitum við bara þegar uppi er staðið hver útkoman er og hefur verið,“ segir Kolbrún.

Hefur þetta engin áhrif á ykkar störf í ríkisstjórninni, þú hefur engar áhyggjur af þessum tölum?

„Nei, akkúrat ekki neinar. Það sem við erum að sjá eru mjög öflugir ráðherrar og formaðurinn hefur verið mjög öflugur og er að skila frábæru verki og aðrir ráðherrar líka. Það hafa náttúrulega verið þarna skipti en þarna eru eins og Eyjólfur Ármannsson ráðherra að gera góða hluti. Hér er bara verið að vinna á fullu og þessi flokkur hefur bara ótrúlega mikla seiglu og úthald og samstarfið í ríkisstjórnarflokkunum er bara algjörlega frábært.“

Langt í næstu kosningar

Þið eruð stolt af ykkar verkum en fylgið heldur áfram að mælast svona, þið náið ekki inn á þing miðað við núverandi kannanir, hvað heldurðu að valdi því?

„Sko, margir í Flokki fólksins eru kannski ekkert endilega fyrir framan tölvuna alla daga. Þetta er auðvitað, eins og þú veist, okkar hópur er kannski frekar eldri en yngri,“ segir Kolbrún. Fylgistölur hafi gjarnan sýnt flokkinn með minna fylgi en þegar á hólminn er komið.

„Og nú eru þrjú ár í næstu kosningar. Þannig að ef að maður ætti að hafa miklar áhyggjur á þessari stundu um að eitthvað væri virkilega að fara niður á við, þá held ég að við myndum nú ekki gera mikið annað en að hafa þær áhyggjur. En við erum hvergi þar og mér finnst allir mjög slakir í mínum flokki og í kringum mig og við erum sjaldan að spekúlera í þessu. En síðan sjáum við bara til hvernig fram líður og hvað kemur næst fram í þessum könnunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×