Íslenski boltinn

Blikar farnir að fylla í skörðin

Sindri Sverrisson skrifar
Katelyn Duong er nýjasti liðsmaður Breiðabliks en lék áður með DC Power.
Katelyn Duong er nýjasti liðsmaður Breiðabliks en lék áður með DC Power. Instagram/@katieduong3

Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur komist að samkomulagi við bandaríska miðjumanninn Katelyn Duong, um að hún leiki með liðinu á komandi leiktíð. Meistararnir hafa misst stóran hóp sterkra leikmanna.

Duong er 24 ára gömul og mætir í Kópavoginn úr bandarísku höfuðborginni, Washington, þar sem hún hefur síðustu tvö tímabil leikið með DC Power í USL-deildinni. Hún hefur alls leikið 40 leiki í deildinni og skorað 10 mörk.

Óhætt er að segja að miklar breytingar hafi orðið hjá Breiðabliki, eftir Íslands- og bikarmeistaratitilinn sem liðið vann á síðustu leiktíð. Þjálfarateymið kvaddi og Ian Jeffs tók við, með Öddu Baldursdóttur sér til aðstoðar og Stefán Loga Magnússon sem markmannsþjálfara.

Farnar frá Breiðabliki

  • Andrea Rut Bjarnadóttir til Anderlecht
  • Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir til Parma
  • Birta Georgsdóttir til Genoa
  • Heiða Ragney Viðarsdóttir til Eksilstuna
  • Katherine Devine
  • Katrín Ásbjörnsdóttir er hætt
  • Kyla Elizabeth Burns
  • Samantha Rose Smith

Reyndar má segja að síðustu leiktíð sé ekki lokið því Breiðablik sló út dönsku meistarana í Fortuna Hjörring, með mögnuðum hætti, í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins. Næstu leikir Blika eru því við Svíþjóðarmeistara Häcken í 8-liða úrslitunum í febrúar.

Fyrsti leikur Breiðabliks í Bestu deildinni á komandi leiktíð verður stórleikur gegn Þrótti 24. apríl á Kópavogsvelli, samkvæmt nýbirtum drögum KSÍ að leikjaáætlun. Blikakonur byrja á tveimur heimaleikjum því þær taka svo á móti Fram 29. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×