Innlent

Neyðará­stand í upp­siglingu takist ekki að fjölga sjúkra­liðum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands.

Meðalaldur hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ljósmæðra hefur hækkað á síðustu árum samkvæmt nýjum Talnabrunni Landlæknisembættisins. Formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir þetta áhyggjuefni en á næstu tólf árum muni um sjö hundruð sjúkraliðar hverfa úr stéttinni sökum aldurs.

Í Talnabrunninum er fjallað um það hvernig mannafli hefur þróast í fimm heilbrigðisstéttum á undanförnum árum. Þetta eru stéttir hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, ljósmæðra, lækna og sálfræðinga. Meðal annars er rýnt í hvernig fjöldi leyfishafa í viðkomandi stéttum hefur þróast með tilliti til mannfjöldaþróunar í landinu og hvernig aldursskipting innan stéttanna hefur breyst. 

Tölurnar í Talnabrunninum sýna að meðalaldur hefur farið hækkandi hjá hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og ljósmæðrum með gilt starfsleyfi og vegna hækkandi aldurs fjölgi meira í eldri aldurshópum en þeim yngri. Þá kemur einnig fram að í sumum stéttum er töluverður munur á fjölda starfandi annars vegar og fjölda gildra starfsleyfa í greininni hins vegar.

Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir meðalaldur sjúkraliða hafa hækkað síðustu ár.

„Þetta er áhyggjuefni vegna þess að fólk er að fara úr faginu. Rúmlega þriðjungur stéttarinnar, er að eldast út úr faginu á næstu tólf árum. Ef okkur tekst ekki að fjölga í stéttinni, þá er þetta neyðarástand. Það er bara þannig,“ segir Sandra. 

Á næstu tólf árum muni um sjö hundruð sjúkraliðar hverfa úr stéttinni sökum aldurs. Mikilvægt sé að bregðast við.

„Það sem við höfum verið að leggja áherslu á er að búa til viðbótarnám við sjúkraliðanámið sem er á fagháskólastigi. Þetta er þá sérnám fyrir sjúkraliða sem þeir geta tekið og það þarf að skapa störf fyrir þá í samræmi við þá færni sem þeir taka með sér út úr náminu,“ segir Sandra.

„Með því að búa til starfsþróunarferil innan fagstéttarinnar sé ég fyrir mér að fleiri muni haldast í faginu í stað þess að fara í önnur störf eða annað nám. Það eru margir sem gera það. Við viljum að sjúkraliðar fari í sjúkraliðastarfið og haldist í því. Til að það geti verður að vera möguleiki á starfsþróun sem skiptir máli fyrir stéttina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×