Innlent

Samningur í höfn á síðustu stundu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Eva Rós er framkvæmdastjóri Bergsins.
Eva Rós er framkvæmdastjóri Bergsins. Vísir/Sigurjón

Samningur til eins árs um fjárstyrk til stuðnings- og ráðgjafarsetursins Bergið headspace var undirritaður rétt fyrir jól eftir að framkvæmdastjóri setursins sagðist óttast að loka þyrfti úrræðinu. Hún segist sátt en vonar enn að fá langtímastuðning.

„Við göngum sátt frá borði,“ segir Eva Rós Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Bergsins headspace. 

Bergið headspace er stuðnings- og ráðgjafasetur þar sem ungmenni á aldrinum tólf til 25 ára geta fengið lágþröskuldaþjónustu með áherslu á stuðning, fræðslu og ráðgjöf.

Í nóvember var samningurinn enn ekki í höfn og sagðist Eva Rós óttast að loka þyrfti starfseminni ef ekki fengist áframhaldandi stuðningur frá stjórnvöldum. Í kjölfar umfjöllunar um Bergið headspace sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þáverandi mennta- og barnamálaráðherra, að fundað hefði verið um áframhaldandi stuðning.

Ekki hafði verið haft samband við Evu Rós á þeim tímapunkti en í samtali við fréttastofu segir hún að samningurinn hafi verið undirritaður rétt fyrir jól. Stuðningur við setrið nær yfir þrjú ráðuneyti: mennta- og barnamálaráðuneytið, félags- og húsnæðismálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið. 

„Það var gengið frá samningi rétt fyrir jól, sem er ágætt í ljósi stólaskiptinga í gær,“ segir hún.

Sjá nánar: „Það eru tímamót hjá ríkisstjórninni okkar“

Hærri upphæð og viðræður um lengri samning

Samningurinn tryggir áframhaldandi stuðning til eins árs, með þeim vilyrðum að gengið verði til viðræðna um langtímasamning í haust. Áður en að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk hafði legið fyrir langtímasamningur en ekki náðist að undirrita samninginn fyrir endaloka stjórnarinnar.

Eva Rós sagði fyrir áramót að enn væri óskað eftir samningi til þriggja ára og 150 milljóna króna framlagi. Nýi styrkurinn hafi ekki verið upp á þá upphæð en hún segist samt sem áður vera afar ánægð með upphæðina. 

„Það er hækkun samhliða aukinni aðsókn en við erum sátt og þakklát fyrir þennan stuðning,“ segir Eva Rós.

„Við viljum langtímasamning og það virðist vera vilji fyrir því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×