Erlent

Segir þörf á sam­tali um „meintan“ yfir­ráða­rétt Dana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Miller dregur yfirráðarétt Dana yfir Grænlandi í efa.
Miller dregur yfirráðarétt Dana yfir Grænlandi í efa. Getty

Stephen Miller, einn nánasti stuðningsmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta og hugmyndasmiður Bandaríkjastjórnar, segir að stóra spurningin sem blasi við varðandi Grænland sé sú hvaða „meinta“ yfirráðarétt Danmörk hafi yfir landinu.

Miller var til viðtals á CNN um afstöðu Bandaríkjastjórnar til Grænlands, þar sem hann sagði alveg ljóst að það væri stefna Bandaríkjanna að Grænland ætti að tilheyra þeim. 

Fréttamaðurinn Jake Tapper spurði ítrekað hvort Bandaríkjastjórn myndi mögulega beita hervaldi til að ná yfirráðum á Grænlandi en Miller gaf lítið fyrir það og virtist gefa í skyn að það væri algjörlega ónauðsynlegt þar sem íbúar væru aðeins um 30 þúsund talsins.

Samtal þyrfti hins vegar að eiga sér stað, þá ekki síst um það á hvaða grundvelli Danmörk byggði yfirráð sín yfir Grænlandi. Bandaríkin væru „aflið“ í Atlantshafsbandalaginu og þyrftu Grænland til að tryggja öryggi á Norðurslóðum.

Tilefni spurninga Tapper eru aðgerðir Bandaríkjanna í Venesúela og ekki síður samfélagsmiðlafærsla eiginkonu Miller, sem birti mynd af Grænlandi undir bandaríska fánanum með orðunum „bráðum“.

Bæði Grænlendingar og Danir hafa brugðist ókvæða við orðræðunni vestanhafs. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, gekk svo langt í gær að segja að mögulegar aðgerðir Bandaríkjanna gagnvart Grænlandi myndu jafngilda endalokum Nató.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×