Skoðun

Snjór í Ártúnsbrekku

Stefán Pálsson skrifar

Litla brekkan ofan við Ártúnsbæinn lætur kannski ekki mikið yfir sér, en engu að síður er hún vagga skíðaíþróttarinnar í Reykjavík. Lengi vel var skíðaiðkun Íslendinga bundin við snjóþung héruð á Vestfjörðum, Norðurlandi og austur á landi, á meðan skíðabúnaður mátti heita óþekktur suðvestanlands. Það voru Norðmenn sem hér voru búsettir sem kenndu Reykvíkingum að renna sér á skíðum á fyrstu árum tuttugustu aldar.

Fljótlega fengu þessir frumherjar skíðaíþróttarinnar augastað á brekkunni við Ártún og farið var að ryðja þar og slétta fyrir skíðabraut. Á árinu 1907 mun hafa verið stofnað Skíðafélagið Áfram, en litlar upplýsingar eru til um starfsemi þess og virðist það hafa lognast skjótt útaf.

Í þessari fyrstu skíðabraut Reykvíkinga voru haldin mót, þar sem keppt var í kunnuglegum greinum á borð við svig – en einnig í sérkennilegri skíðaíþróttum á borð við para-keppni þar sem keppendur af sitthvoru kyni renndu sér niður brekkuna í kapp við klukkuna en þurftu að haldast í hendur alla leið niður. Þá var keppt í háskagreinum, þar sem skíðamaðurinn renndi sér niður með logandi kyndil í annari hendi!

Ekki hugnaðist öllum valið á skíðabrekkunni. Stjórnendur Ungmennafélaganna í bænum töldu Ártún alltof langt í burtu sem skíðasvæði og kappkostuðu að koma upp nothæfri skíðabraut utan í Öskjuhlíð. Þrátt fyrir mikið streð fór sú vinna að mestu fyrir gýg. Skíðabrautin, sem rudd var á sex sumrum af félagsfólki, varð að sönnu slétt og fögur, en þar festi sjaldan snjó!

Langt er um liðið síðan fullorðnir skíðamenn í Reykjavík hættu að líta við Ártúnsbrekku. Með tilkomu bílasamgangna opnuðust ný og betri skíðasvæði í Bláfjöllum, í Henglinum og víðar. Eftir sem áður hélt gamla brekkan við Ártún áfram að vera mikilvæg uppeldisstöð fyrir yngstu iðkendurnar sem eru að stíga sín fyrstu skref. Það er því mikið gleðiefni að snjóframleiðsla sé hafin Í Ártúnsbrekkunni. Það þýðir að hægt verður að renna sér þar miklu stærri hluta ársins en verið hefur, sem mun gleðja fjölmargar fjölskyldur. Reynslan sem fæst af snjóframleiðslunni mun jafnframt nýtast á öðrum skíðasvæðum á vegum borgarinnar, s.s. í hinum fyrirhugaða Vetrargarði í Breiðholtshverfi.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna & fulltrúi í Menningar- og íþróttaráði Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Utan­ríkis­málaárið 2025

Vilborg Ása Guðjónsdóttir,Erlingur Erlingsson,Guðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir,Guðrún Helga Jóhannsdóttir,Sveinn Helgason skrifar

Sjá meira


×