Innlent

Svan­dís stígur til hliðar

Agnar Már Másson skrifar
Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir.

Svandís Svavarsdóttir hyggst ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður Vinstri grænna á næsta landsfundi flokksins.

Hún greinir frá því á Facebook að hún hafi ákveðið að bjóða sig ekki fram til endurkjörs sem formaður flokksins á landsfundi flokksins árið 2026.

„Ákvörðunin er persónuleg og tekin af yfirvegun eftir samtöl og umhugsun,“ skrifar Svandís, sem tók við formennsku í fyrra.

„Síðustu tuttugu ár hef ég helgað líf mitt stjórnmálum og baráttunni fyrir betra og réttlátara samfélagi. Sú barátta heldur áfram. Það hafa verið forréttindi að starfa í þágu almennings og fá að vera í framlínu stjórnmálanna allan þennan tíma.“

„Ég hef fulla trú á mikilvægu hlutverki Vinstri grænna og mun leggja mitt af mörkum til að rödd hreyfingarinnar heyrist skýrt í komandi kosningum. Mannúð, réttlæti og ábyrgð gagnvart náttúrunni hafa aldrei verið brýnni,“ bætir hún við.

Formaðurinn víkur á erfiðum tíma fyrir flokkinn en Vinstri græn náðu hvorki manni á þing í síðustu þingkosningum né náði hann 2,5 prósenta lágmarksviðmiðinu til að hljóta styrk sem stjórnmálaafl.

Svandís tók við af Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, eftir að sú síðarnefnda kúplaði sig úr pólitík og reyndi við forsetaframboð. 

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×