Innlent

Vest­firðingar sjá fram á þrenn ný jarð­göng

Kristján Már Unnarsson skrifar
Mokað í gegnum snjóflóð sem fallið hafði á þjóðveginn um Súðavíkurhlíð.
Mokað í gegnum snjóflóð sem fallið hafði á þjóðveginn um Súðavíkurhlíð. Vísir

Miklar vegabætur er ráðgerðar á Vestfjörðum á næstu fimmtán árum, þar á meðal þrenn jarðgöng, samkvæmt nýbirtri samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar. Þá verður Bíldudalur tengdur Dynjandisheiði með bundnu slitlagi.

Í fréttum Sýnar mátti sjá veginn um Súðavíkurhlíð á milli Ísafjarðar og Súðavíkur en hann er jafnframt hluti Djúpvegar. Jarðgöng til að leysa af þennan kafla eru núna komin í annað til þriðja sæti í forgangsröðina ásamt Fjarðagöngum á Austurlandi.

„Það er grjóthrun og snjóflóðahætta á veginum. Stórhættulegur vegur,“ segir Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra í viðtali sem sjá má hér:

Nokkrar mislangar jarðgangaleiðir koma til greina en ætla má að framkvæmdir gætu hafist árið 2030.

„Súðavík myndi þá nánast verða eins og hverfi á Ísafirði eða Skutulsfirði. Það er bara örstutt á milli. Og þetta gæti leitt til sameiningar sveitarfélaga. Frábær höfn í Súðavík,“ segir ráðherrann.

Nokkrir valkostir koma til greina við val á jarðgangaleið milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar.grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson

Í Vesturbyggð eru jarðgöng undir fjallvegina Mikladal og Hálfdán í fjórða sæti en þar gætu gangnaboranir hafist eftir áratug.

„Það er mikið fiskeldi þar og uppgangur og gríðarlega mikilvægt að þetta sveitarfélag, Vesturbyggð, að það séu þá góðar samgöngur milli Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar. Mjög mikilvægt,“ segir Eyjólfur.

Tvenn jarðgöng eru áformuð í Vesturbyggð.grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson

Bíldudalsvegur í sunnanverðum Arnarfirði fær einnig brautargengi.

„Við ætlum að fara núna sem allra fyrst í veginn af Dynjandisheiði niður í suðurfirði Arnarfjarðar.“

Frá Bíldudalsvegi á leiðinni úr Trostansfirði upp á Dynjandisheiði.Egill Aðalsteinsson

Þetta er alls 29 kílómetra langur vegur milli Bíldudalsflugvallar og gatnamóta við Helluskarð á Dynjandisheiði. Verkið á að vinna í áföngum til ársins 2035.

„Þegar Dynjandisheiði er búin þá verður hafist handa við að gera veginn niður í Trostansfjörð.“

Fyrirhugað er að endurbyggingu Bíldudalsvegar verði skipt niður á tvö tímabil.grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson

Tvenn önnur jarðgöng, undir Gemlufallsheiði og Klettsháls, komast á lista yfir jarðgangakosti til nánari skoðunar. Klettsháls er núna sá fjallvegur þjóðvegakerfisins sem býr við flesta lokunardaga að jafnaði á ári. En væri þá rökréttara að hann kæmist framar í röðina?

„Hann er allavegana ekki í topp fjögur. Hann er á listanum yfir ellefu jarðgöng sem við ætlum að skoða nánar,“ svarar ráðherrann.

Horft af veginum um Klettsháls niður í Kollafjörð.Egill Aðalsteinsson

Þá fær uppbygging vegarins yfir Veiðileysuháls á Ströndum fjárveitingu á árunum 2031 til 2035.

„Það verður farið í Hvalárvirkjun vonandi sem fyrst. Það er mjög mikilvægt að fara í vegbætur þar,“ segir Eyjólfur Ármannsson.

Hér má sjá ítarlegra yfirlit um fyrirhugaðar nýframkvæmdir í vegagerð:


Tengdar fréttir

Biðin eftir jarðgöngum óásættanleg

Bæjarstjóri Ísafjarðar segir óásættanlegt að biðin eftir jarðgöngum á milli Súðavíkur og bæjarins verði líklega um tuttugu ár eins og staðan er nú. Ítrekað hafi þurft að loka veginum um Súðavíkurhlíð í vetur vegna snjóflóða og ótrúlegt sé að ekki hafi orðið stórslys.

Vestfirðingar vilja láta bora fern ný jarðgöng

Forystumenn á Vestfjörðum telja þörf á minnst fernum nýjum jarðgöngum í fjórðungum til að koma samgöngumálum þar í viðunandi horf; einum á norðanverðum fjörðunum og þrennum á sunnanverðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×