Skoðun

Hafnar­fjörður í blóma: Sókn og stöðug­leiki

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir skrifar

Þegar horft er yfir fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir árið 2026 blasir við skýr mynd af bæjarfélagi í sókn. Sem formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs sem og menningar- og ferðamálanefndar, fyllist ég stolti yfir þeim metnaði sem birtist í áætluninni sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi á miðvikudaginn 3. desember. Við erum nefnilega að gera hvort tveggja í senn; að byggja upp nýtt og spennandi samfélag til framtíðar, en jafnframt að hlúa vel að þeim verðmætum sem við eigum nú þegar.

Uppbygging og innviðir

Framkvæmdagleðin er mikil í Hafnarfirði. Stærsta einstaka verkefnið á komandi ári er bygging Hamranesskóla, en til þess verkefnis verja bæjaryfirvöld tveimur milljörðum króna. Þetta er fjárfesting í framtíðinni og styrkir nýjasta hverfið.

En við gleymum ekki grunninum. Við leggjum aukna áherslu á viðhald fasteigna og innviða bæjarins með 10% hækkun framlags til málaflokksins. Við munum halda áfram að fegra bæinn, bæta götur og stíga, og tryggja öflugan snjómokstur og hálkuvarnir. Markmiðið er skýrt: Bærinn okkar á að vera snyrtilegur, öruggur og aðlaðandi, hvort sem er í skammdeginu eða á björtum sumardögum.

Menningarbærinn eflist

Það er stutt á milli framkvæmda og menningar. Skýrasta dæmið um það er nýtt og glæsilegt Bókasafn Hafnarfjarðar sem opnar í verslunarmiðstöðinni Firði á vormánuðum. Þetta verður ekki bara bókasafn, heldur lifandi samkomuhús og hjartað í miðbænum.

Hafnarfjörður skorar hæst allra sveitarfélaga í ánægju íbúa með menningu og við ætlum að standa undir því. Heildarframlög til menningarmála eru áætluð 890 milljónir króna. Við ætlum að stórefla viðburðahald og ætlum að skapa festu í grasrótarstarfinu með langtímasamningum við burðarása í menningarlífinu eins og Víkingahátíðina og Lúðrasveit Hafnarfjarðar auk þess að stofna nýjan kórsjóð.

Björt framtíð

Þessi fjárhagsáætlun er til marks um trú okkar á Hafnarfjörð. Við erum að fjárfesta í innviðunum, í umhverfinu, en fyrst og fremst í fólkinu. Við mætum nýju ári með bjartsýni, ábyrgð og krafti. Hafnarfjörður er bær í blóma.

Höfundur er bæjarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

Ekki líta undan

Reyn Alpha Magnúsdóttir,Bjarndís Helga Tómasdóttir skrifar

Sjá meira


×