Innlent

Fór yfir fanga­klefa á Vestur­landi: Hálf hurð á bað­her­berginu og klefinn of lítill

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fangaklefarnir eru í Borgarnesi og á Akranesi.
Fangaklefarnir eru í Borgarnesi og á Akranesi. Samsett

Umboðsmaður Alþingis tók út aðstöðu, aðbúnað og meðferð þeirra sem eru í haldi lögreglunnar á Vesturlandi. Meðal tilmæla var að setja þyrfti upp klukku og hátta málum svo vistaðir geti fengið að nota salernið í næði.

Umboðsmaður Alþingis heimsótti fangageymslur lögreglunnar á Vesturlandi í Borgarnesi og Akranesi 8. og 9. júlí árið 2024 til að taka út vistun einstaklinga í fangageymslum lögreglustöðvanna. Á einu ári voru 43 vistaðir í fangageymslunum, til lengri tíma á Akranesi en oftar í skemmri tíma í Borgarnesi.

Í niðurstöðum umboðsmannsins kemur fram að klefinn í Borgarnesi sé of lítill miðað við alþjóðleg viðmið um lengri vistanir og því megi ekki vista einstakling þar lengur en í nokkrar klukkustundir. Bjöllurnar sem eru í klefunum sem þeir sem dvelja þar geta nýtt til að ná sambandi við starfsfólk eru ekki nógu aðgengilegar fólki með hreyfihömlur eða öðrum með skerta hreyfigetu, líkt og ölvaðir einstaklingar.

Í fangaklefum á Akranesi er hlíf fyrir hlera að fangaklefanum og er hún talin skerða yfirsýn inn í þá. Lögreglustjóranum var bent á að taka til skoðunar hvort nota þurfi aðrar leiðir við rauneftirlit. Einnig þurfi að setja þar upp klukku til að vistaðir sjái hvað tímanum líði líkt og réttur þeirra er. Bjöllurnar í klefunum séu einnig ekki nægilega vel staðsettar og lítið heyrist í þeim þegar bjöllunum er hringt.

Þá þurfi að breyta klefanum svo vistaðir geti stýrt birtu inni í klefanum. Fangaklefarnir á Akranesi eru gluggalausir og því sé enn mikilvægara að hægt sé að stýra birtunni þar inni. 

Eigi að fá að nota salernið í næði

Hreinlætisaðstaða beggja lögreglustöðvanna er talin ekki nægilega örugg. Á Akranesi sé auðvelt að brjóta salernið, vask og spegil auk þess sem lagnir á hreinlætistækjum séu utanáliggjandi. Sturtuhengi sé í sturtunni sem veki upp spurningar um tillit til öryggissjónarmiða.

Salerni vistaðra í fangaklefum Borgarness er ekki með hurð sem nær alveg upp í loft. Umboðsmaður telur að tryggja þurfi að vistaðir fái að nota salernið í næði, ef ekki sé talin ástæða til þess að viðkomandi sé alltaf í sjónmáli. Þá sé efri hluti sturtunnar sjáanlegur meðan hurðin er lokuð. Þá sé einnig brjótanlegt salerni, vaskur og spegill, auk utanáliggjandi lagna.

Hurðin í Borgarnesi hefur verið skorin niður.Umboðsmaður Alþingis

Á hvorugum staðnum má finna tíðavörur endurgjaldslaust. Tryggja þarf að mismunandi tíðavörur séu í boði til að fullnægja ólíkum þörfum og að það sé ekki til ama að losa sig við þær.

Fylgist stöðugt með klefunum

Sú staða getur komið upp að ekki sé lögreglumaður af sama kyni og sá vistaði á staðnum til að framkvæma öryggisleit. Það fellur á herðar lögreglustjórans að tryggja að slíkt sé í boði. Þá sé ekki skriflegt verklag um hvaða muni skuli fjarlægja úr fórum vistaðra.

Á báðum lögreglustöðunum er stöðug myndvöktun með þeim sem eru vistaðir á þeim forsendum að hún geti dregið úr líkum á ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og fyrirbyggt sjálfsvíg, sjálfsskaða og ofbeldisatvik. Þá sé það raunhæfara en stöðugt rauneftirlit. 

Umboðsmaðurinn segir hins vegar að meta þurfi í hverju tilfelli hvort að nauðsynlegt sé að fylgjast stöðugt með vistuðum, slíkt eftirlit feli í sér takmörkun á friðhelgi einkalífs.

Í skýrslu umboðsmanns Alþingis eru teknir fram vankantar á skráningu, til að mynda skráningu muna sem eru teknir í varðveislu lögeglu, skrá um eftirlit sem haft er með vistuðum í fangaklefa og skrá um óskir handtekins manns um tilkynningu til vandamanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×