Viðskipti innlent

Rekja aukna bíla­sölu til komandi vörugjaldahækkunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Reikna má með því að verð á jarðefnaeldsneytisknúnum fólksbílum hækki eftir áramót ef tillögur fjármálaráðherra um vörugjöld verður að veruleika.
Reikna má með því að verð á jarðefnaeldsneytisknúnum fólksbílum hækki eftir áramót ef tillögur fjármálaráðherra um vörugjöld verður að veruleika. Vísir/Vilhelm

Óvenjumargir fólksbílar voru nýskráðir í nóvember og tengir Bílgreinasamband Íslands það við boðaða hækkun á vörugjaldi á jarðefnaeldsneytisknúnar bifreiðar. Breytingin muni líklega auka hlutfall hreinorkubíla á kostnað jarðefnaeldsneytisknúinna.

Rúmlega fjórtán hundruð fólksbílar voru nýskráðir í nóvember samkvæmt tölum sambandsins. Það er hátt í þrefalt fleiri en í sama mánuði í fyrra en þá drógust þær verulega saman frá árinu 2023, um rúmlega sextíu prósent. Nýskráningar í nóvember árin 2022 og 2023 voru tæplega 1.300.

Sambandið rekur aukninguna nú mögulega til tillagna fjármálaráðherra um hækkun vörugjalda á ökutæki sem ganga að hluta eða öllu leyti fyrir jarðefnaeldsneyti sem voru kynntar í október.

Reynslan sýni að þegar slíkar hækkanir hafi verið boðaðar færist hluti fyrirhugaðra bílakaupa fram í tíma, áður en hækkanir taka gildi. Tillaga fjármálaráðherra nú valdi verulegum hækkunum á tvinnbíla, tengiltvinnbíla, hefðbundna bensín- og dísil bíla og minni vörubifreiðar.

Óvíst hvenær áhrifin koma fram

Á hinn bóginn muni verð hreinna rafbíla ýmist hækka eða lækka eftir því hvort vegi þyngra í heildarverði þeirra, lægri rafbílastyrkur eða niðurfelling fimm prósenta vörugjalds.

„Til framtíðar má gera ráð fyrir að breytingarnar leiði til breytinga á samsetningu nýskráðra fólksbíla m.t.t. orkugjafa, með lægra hlutfalli tvinnbíla, tengiltvinnbíla og hefðbundinna bensín- og dísilbíla á sama tíma og hlutfall hreinorkubíla eykst,“ segir í tilkynningu Bílgreinasambandsins.

Óvíst sé þó hvenær þessi þróun sjáist skýrt í tölum um nýskráningar. Óljóst sé hvenær nýskraningar allra þeirra fólksbíla sem búist sé við í árslok eigi sér stað og þá sé ekki víst að tölur næsta árs verði að fullu marktæktar þar sem kaup á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti séu líkleg til að færast frá næsta ári til ársins í ár.

Tæplega tveir af hverjum þremur rafbílar

Einstaklingar skráðu 61 prósent fleiri fólksbíla í nóvember en í sama mánuði í fyrra. Tæplega tveir af hverjum þremur þeirra voru alfarið knúnir rafmagni en tæplega fimmtungur var tengiltvinnbílar.

Hlutfall bíla sem ganga að öllu leyti eða hluta fyrir rafmagni var svipað hjá almennum fyrirtækjum, öðrum en bílaleigum. Um 57 prósent nýskráðra bíla þeirra í nóvember voru hreinir rafbílar en 22 prósent tengiltvinnbílar.

Sem fyrr ganga orkuskipti hægast fyrir sig hjá ökutækjaleigunum en þær stóðu fyrir 44 prósent allra nýskráninga fólksbíla í mánuðinum.

Algengustu nýskráðu bílaleigubílarnir voru tvinnbílar en þar á eftir tengiltvinnbílar. Tæplega þriðjungur þeirra voru bensín- eða dísilbílar. Hlutdeild hreinna rafbíla var svipuð og dísilbíla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×