Handbolti

Skjótur bati Janusar: „Tel mig heppinn að ekki hafi farið verr“

Aron Guðmundsson skrifar
Janus Daði Smárason í leik með íslenska landsliðinu
Janus Daði Smárason í leik með íslenska landsliðinu Vísir/Vilhelm

Gleðitíðindi bárust fyrir ís­lenska lands­liðið í hand­bolta um nýliðna helgi nú þegar að styttist í Evrópumótið í janúar. Lands­liðs­maðurinn Janus Daði Smára­son er mættur aftur inn á völlinn, fyrr en áætlað var, eftir að hafa rifið liðband í hné.

Janus meiddist í leik með ung­verska liðinu Pick Szeged undir lok septem­ber mánaðar og var gert ráð fyrir því að hann yrði frá í 10-12 vikur. Janus Daði sneri hins vegar aftur inn á völlinn á sunnu­daginn síðastliðinn, sléttum átta vikum eftir að hafa meiðst, og skoraði tvö mörk í öruggum sigri Szeged.

„Það er bara gott að spila, hafa verið leiðin­legar undan­farnar vikur. Að vera á hliðar­línunni, við erum óvanir því sem íþrótta­menn þannig séð. Viljum helst vera með og reyna skipta máli,“ segir Janus Daði í viðtali hjá íþróttadeild Sýnar.

Heppinn og glaður með að ekki hafi farið verr

Janusi tókst að til­einka sér jákvætt hugar­far á meðan að endur­hæfingunni stóð og að öllum líkindum spilar það stóran þátt í því að hann snýr nú fyrr til baka en vonir stóðu til.

„Ég er þokka­lega meðvitaður um að svona getur gerst og þá er þetta bara verk­efni sem maður þarf að tækla. Svo lengi sem liðið þitt er að vinna leiki þá er þetta alltaf auðveldara en um leið og töpin gerast þá ertu kannski meira pirraður yfir því að geta ekki verið að bakka þá upp. Ég nýtti tímann bara vel í að sinna líka­mana og viðhalda því sem hægt var að viðhalda. Þetta leið nú þokka­lega hratt, allt í einu voru liðnar sex til sjö vikur og þokka­lega stutt í þetta. Ég er bara glaður með að þurfa ekki að bíða lengur með að fara keppa.“

„Ég taldi mig bara vera nokkuð heppinn og glaður með að það fór ekki verr, var bara jákvæður yfir þessu allan tímann. Eigum við ekki að segja að það spili inn í. Að ef maður hefur nógu mikla trú á því að þetta gangi að þá taki maður betur á móti þessu. Ég er þokka­lega meðvitaður um að svona getur gerst og þá er þetta bara verk­efni sem maður þarf að tækla.“

Þarf að venjast því aftur að láta lemja á sér

Ekkert bak­slag varð í endur­hæfingu Janusar og var leikur síðastliðinnar helgar, þar sem Pick Szeged vann öruggan sigur, full­kominn fyrir hann til það að snúa aftur í.

„Mér líður samt núna í líkamanum eins og það sé ágúst í undir­búningstíma­bili. Mér er illt í bakinu og mjöðmunum, maður er að venjast því að komast í al­vöru snertingu aftur og láta aðeins berja á sér. Því miður er ég í mikilli baráttu þegar ég er að spila og þarf svona kannski viku eða tvær til að komast yfir það. En annars er þetta sami takturinn, þægi­legt þegar að dag­leg rútína tekur við aftur því maður er eigin­lega meira út í íþrótta­húsi þegar að maður er meiddur, eins asna­lega og það hljómar. Enda­laust af tímum í ein­hverjum græjum. Ég er bara glaður með að sleppa við að gera það leiðin­lega og fá að gera það skemmti­lega núna.“

Það er oftar en ekki tekið ansi hart á Janusi DaðaVísir/Pawel Cieslikiewicz

Það var einungis fyrsta kvöldið eftir meiðslin sem að Janus hafði smá áhyggjur af því hvort komandi Evrópumót, með ís­lenska lands­liðinu í janúar væri úr sögunni. Nú hefur hann hins vegar góðan tíma til þess að undir­búa sig fyrir átökin þar.

„Það er fyrsta sem maður hugsar um, þessi blessaði janúar­mánuður sem maður er alltaf að bíða eftir. Svo er hann allt í einu búinn og þá er maður aftur farinn að bíða. Bara frábært að geta byrjað að æfa núna aftur á fullu, komast aftur í leikæfingu og takt. Nú er mark­miðið bara að vera í topp­standi þegar að við hefjum undir­búning eftir áramót.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×