Viðskipti innlent

Gera ráð fyrir svipuðum hag­vexti og í Covid

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Það var fjölmennt á fundi Peningastefnunefndar í Seðlabankanum í morgun. Ásgeir Jónsson kynnt ákvörðun nefndarinnar. Þau Guðmundur Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna og Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka segja nefndina hafa tekið nýja stefnu.
Það var fjölmennt á fundi Peningastefnunefndar í Seðlabankanum í morgun. Ásgeir Jónsson kynnt ákvörðun nefndarinnar. Þau Guðmundur Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna og Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka segja nefndina hafa tekið nýja stefnu. Vísir

Lánskjör heimilanna hafa versnað verulega vegna vaxtamálsins svokallaða að sögn Seðlabankastjóra. Peningastefnunefnd hafi því ákveðið að lækka stýrivexti þrátt fyrir þráláta verðbólgu. Áhrif áfalla sem dunið hafa á hagkerfinu undanfarið eigi hins vegar eftir að koma í ljós. Hagvaxtarspá fyrir næsta ár hafi versnað verulega og sé svipuð og í Covid.

Peningastefnunefnd lækkaði stýrivexti bankans um núll komma tuttugu og fimm prósentur í morgun og eru meginvextir bankans nú 7,25 prósent. 

Flest fjármálafyrirtæki höfðu spáð óbreyttum stýrivöxtum því verðbólga mælist enn 4,3 prósent meðan fimm ára verðbólgumarkmið bankans er um 2,5 prósent.

Miða ekki lengur við verðbólgu heldur verri lánsskilyrði

Peningastefnunefnd hafði við síðustu vaxtaákvarðanir gefið út að verðbólga þyrfti að hjaðna meira svo hægt væri að lækka vexti. Við ákvörðunina í dag var hins vegar fyrst og fremst litið til verri lánskjara heimila og það vegna viðbragða fjármálafyrirtækja við dómi Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða. 

„Við höfum séð töluverða herðingu á fjármálaskilyrðum eftir dóm Hæstaréttar um lánaskilmála. Við erum að sjá að húsnæðiskaupendur hér á landi fá hærri vexti og verri kjör. Þannig hefur það gerst að aðhald Peningastefnunnar hefur verið að herðast og við ákváðum að bregðast við því með þessari ákvörðun,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Fullnaðasigur?

Þessi viðbrögð bankanna við vaxtadómnum eru líklega ekki það sem Neytendasamtökin bjuggust við þegar hann féll í síðasta mánuði. En við það tækifæri sagði Breki Karlsson formaður samtakanna: 

„Ég sé ekki betur við fyrstu sýn að þetta sé fullnaðarsigur. Bankanum er óheimilt að nota huglæga þætti til viðmiðunar við vaxtaákvörðun.“

Hvort dómur Hæstaréttar í vaxtamálinu hafi haft þveröfug áhrif á neytendur svarar Ásgeir: 

„Það eru fleiri dómar eftir en áhrif þessa dóms hafa verið að lánskjör hafa að einhverju leyti þrengst.“

Hann segir ekki hlutverk Seðlabankans að dæma um viðbrögð bankanna við dómnum.  

„ Það er svo sem ekki okkar að vera sammála eða ósammála þessum viðbrögðum við dómnum, við höfum bara reynt að bregðast við stöðunni,“ segir Ásgeir.

Svipað og í Covid

Ásgeir segir áhrif áfalla sem dunið hafa á raunhagkerfinu eftir að koma í ljós en skýr merki séu um kólnun. Búist sé við minni hagvexti á næsta ári en áður hafði verið spáð.

„Við gerum ráð fyrir að hagvöxtur verði töluvert minni en við spáðum og verði innan við eitt prósent á næsta ári. Við þurfum að leita aftur til Covid til að finna eins lítinn hagvöxt.“ segir Ásgeir.

Blendin viðbrögð við ákvörðuninni

Það hafa verið blendin viðbrögð við ákvörðun Peningastefnunefndar. Formaður Starfsgreinasambandsins sagði til dæmis að honum fyndist þetta aumingjaleg lækkun, hefði viljað sjá lækkun um 50 punkta. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins fagnaði hins vegar ákvörðuninni sem hafi verið óvænt og þvert á spár. Það sé hins vegar fullt tilefni til lækkunar því hagkerfið sé að kólna hratt.

Víðtæk áhrif vaxtamálsins

Peningastefnunefnd fékk margar spurningar úr sal þegar stýrivaxtaákvörðunin var kynnt í morgun. Salurinn var nánast fullur og greinilega mikill áhugi á skýringum nefndarinnar. Meðal þeirra sem sátu fundinn var Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka.  

„Greiningardeildir bankanna voru búnar að gera ráð fyrir óbreyttum vöxtum því verðbólga er 4,3 prósent, sem er yfir markmiði. Nefndin horfði hins vegar frekar til umróts á lánamarkaði sem verður til þess að þau lækka vexti núna en ekki öll áföllin í raunhagkerfinu. Þetta er ekki gert til að draga úr aðhaldi á kerfinu heldur til að mæta þessu umróti á kerfinu,“ segir Erna. 

Aðspurð um hvort vaxtamálið hafi mögulega haft neikvæð áhrif á neytendur í ljósi þess að lánsskilyrði hafi versnað svarar Erna:

„Jú það var lagt upp með það að þetta mál ætti að bæta hag neytenda en það sem við höfum séð núna er að það hafa verið miklar breytingar á lánsframboði. Það er ekki endanlegt hver niðurstaðan verður, það eru fleiri mál sem eiga eftir að koma. En það ríkir mikil óvissa sérstaklega þegar kemur að verðtryggðum lánum,“ segir Erna.

Áhugaverður rökstuðningur

Guðmundur Ásgeirsson formaður Hagsmunasamtaka heimilanna var á fundinum í morgun og hefði viljað sjá snarpari vaxtalækkun.

„Við hefðum viljað sjá meiri lækkun, þetta er algjört lágmark. Þá hefðum við viljað sjá þetta gerast fyrr. Það sem er áhugavert við þessa ákvörðun er rökstuðningurinn sem virðist aðallega byggjast á umróti á lánamarkaði í kjölfar dóms í vaxtamálinu sem ég vil frekar kalla skerðingu á framboði verðtryggra lána til heimila. Það hefur verið baráttumál okkar að losna við verðtrygginguna. Það verður mjög áhugavert að sjá hvaða áhrif þessi breyting á lánaframboði bankanna, sérstaklega á verðtryggðum lánum, mun hafa á lánamarkaðinn. Þetta mál er líka beinlínis að hafa áhrif á  heildarhagkerfið í gegnum þessa ákvörðun Peningastefnunefndar,“ segir Guðmundur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×