Lífið

Aug­lýsir eftir eig­anda poka með hvítu dufti

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Pokinn fannst við Vesturbæjarlaug.
Pokinn fannst við Vesturbæjarlaug.

Á Facebook síðu Vesturbæjar Reykjavíkur var í kvöld auglýst eftir eiganda lítils plastpoka með hvítu dufti sem fannst við Vesturbæjarlaug. Kímnigáfa Vesturbæinga lét ekki á sér standa í umræðum um málið.

„Þú sem að týndir pokanum þínum í Vesturbæjarlaug getur vitjað hans í afgreiðslunni,“ segir Árni Björn Helgason, íbúi í Vesturbænum, sem birti myndina fyrr í kvöld.

Árni Björn segir í samtali við Vísi að hann hafi fundið pokann á bekk fyrir utan sundlaugina.

„Hann hefur væntanlega dottið úr vasanum hjá einhverjum,“ segir Árni Björn sem var á leiðinni í sund með konunni sinni. Hann henti pokanum í ruslið en ekki fyrr en hann hafði fengið grænt ljós frá konunni til að gera smá grín í Vesturbæjargrúppunni.

Þegar þetta er skrifað hefur færslan fengið um þrjú hundruð viðbrögð, og tæplega þrjátíu athugasemdir og fjölgar stöðugt. Óhætt er að segja að grínið haldi áfram.

„Hjelt jeg myndi synda hraðar með smá línu, en nei... Sofnaði næstum í gufunni. Þið getið hent þessu,“ segir Jón Örn.

„Ah þarna er lyftiduftið mitt!“ segir Þorvaldur Sigurbjörn.

Tori Lewis tók það að sér að vera rödd skynseminnar og sagði í athugasemd:

„Jesús, fólk sem gerir svona, haldið þessu frá börnum að minnsta kosti... þarna hefði getað orðið hrikalegt slys.“

Ein athugasemdin er stutt og  hnyttin: „Spítt og Speedo“. Annar bendir á að þarna sé hin eina sanna Borgarlína.

Einhverjir hafa í athugasemdum velt því upp hvort um sé að ræða matarsóda eða fæðubótarefni fyrir vaxtaræktarfólk. Árni Björn segist ekki djúpur í fræðunum þegar komi að örvandi efnum en telur nú líklegra að um sé að ræða fíkniefni. Hann staldraði ekki við það heldur henti pokanum sem fyrr segir í ruslið áður en þau hjónin upplifðu sæluvímu, vímuefnalaus, í heita pottinum í lauginni.

Sjá frekari umræður á Facebook.

Fréttin var uppfærð eftir að náðist í Árna Björn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.