Lífið

Aug­lýsing Blush sé fyrir neðan allar hellur

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Blush auglýsti forsölu á kynlífstæki klámleikkonunnar Bonnie Blue í gær sem vakti hörð viðbrögð. Fanney Rún Ágústsdóttir var meðal þeirra sem gagnrýndu söluna.
Blush auglýsti forsölu á kynlífstæki klámleikkonunnar Bonnie Blue í gær sem vakti hörð viðbrögð. Fanney Rún Ágústsdóttir var meðal þeirra sem gagnrýndu söluna. Samsett mynd

Kynlífstækjaverslunin Blush virðist hafa tekið vöru umdeildrar klámleikkonu úr sölu eftir að auglýsing á samfélagsmiðlum vakti hörð viðbrögð víða. Móðir sem fordæmdi söluna segir vörur sem þessar grafa undan kvenréttindum og senda skökk skilaboð út í samfélagið.

Kynlífstækjaverslunin Blush kynnti í gær á samfélagsmiðlinum sínum forsölu á nýju kynlífstæki eða „afsteypu af kynfærum klámleikkonunnar Bonnie Blue“. Auglýsingin vakti hörð viðbrögð en fjölmargir skrifuðu athugasemd við færsluna og fordæmdu sölu vörunnar í nafni umdeildu klámleikkonunnar. 

Auglýsingin hefur síðan verið tekin niður og þá er varan ekki til sölu á heimasíðu Blush.

„Afsteypa af kynfærum hinnar margumrómuðu Bonni Blue, með signature örvunarmynstri sem fer með þig alla leið. Með hverri pöntun fylgir 30 ml sleipiefni frá Fleshlight svo þú getur notið hennar strax,“ segir í auglýsingu Blush.Skjáskot

Blue sem er 26 ára Englendingur, hefur gert sér það til frægðar að taka sig upp í ýmiss konar kynlífsgjörningum þar sem hún er gjarnan með miklum fjölda karlmanna hverju sinni. Til dæmis framleiddi hún heimildarmynd þar sem hún svaf hjá 1057 karlmönnum á tólf klukkustundum.

Í myndböndum á hennar vegum hefur hún einnig sótt háskóla heim í leit að karlmönnum sem eru nýlega orðnir lögráða og þá komst hún í krappan dans á Balí fyrir nokkru.

Ein af þeim sem gagnrýndu sölu vörunnar er Fanney Rún Ágústsdóttir, framreiðslumaður og móðir, sem segir það koma verulega á óvart að Blush skuli fara þessa leið. Hún sendi póst á eiganda Blush sem hafi verið svarað af semingi.

„Mér blöskraði að sjá þessa auglýsingu. Því að þarna er einstaklingur sem ekki bara vinnur í klámiðnaðinum heldur líka kona sem hefur tekið kvenbaráttu mörg ár aftur í tímann. Hún talar semsagt mjög opinskátt um það að kvenfólk séu eignir karlmanna og að konur eigi að lúffa fyrir karlmönnum og gera það sem þeir vilja að kvenfólk geri.“

Hún segir það grófa efni sem Bonnie Blue framleiðir senda skökk og neikvæð skilaboð út í samfélagið.

„Vegna þess að ungir karlmenn eru kannski flestir í fylgjendahópi hennar og þetta sendir þau skilaboð að þeir megi gera það sem þeir vilja við kvenfólk. Þetta setur líka gríðarlega pressu á ungt kvenfólk í dag og þetta er mikið áhyggjuefni. Ef að þetta á að vera manneskja sem að ungt fólk á að líta upp til í dag.“

Hún skilji ekki að fyrirtæki sem hafi stuðlað að jákvæðu kynheilbrigði til þessa ýti undir boðskap Blue.

„Það er rosalega flott sem Blush hefur gert í gegnum árin. Þau hafa talað um heilbrigt kynlíf, samþykki og margt annað. Að þau skuli selja þessa vöru sé fyrir neðan allar hellur. “

Hún fagnar því að hörð viðbrögð hafi haft þau áhrif að auglýsingin hafi verið tekin niður.

„Gerður Arinbjarnadóttir, eigandi Blush, svaraði töluvpósti frá mér í gær og talaði um að þetta væri bara vara sem þau eru að selja. Ég er mjög ósammála því. Þetta er ekki bara vara því að Bonnie Blue er varan sjálf. Mér skilst að það hafi margir tjáð sig um þetta mál og verið á móti þessu. Gerður sagði að það hafi verið mikil eftirspurn eftir þessari vöru sem mér finnst ótrúlegt og óðgeðslegt ef ég á að vera hreinskilin. Ég vona innilega að þessi vara komi ekki aftur í sölu. Og ég vona innilega að þær vörur sem hún var búin að selja á forsölu verði ekki sendar heldur verði varan bara send aftur til baka til Bandaríkjanna þar sem varan á heima.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.