Tíska og hönnun

„Ég fékk al­veg gæsa­húð þegar ég sá þetta“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sigurður Oddsson, hönnunarstjóri Aton, varð mjög hissa þegar hann sá nýja fæðupýramída bandaríkjanna og hvað útlit hans, áferð og teikningar voru líkar fæðuhringnum sem Aton gerði fyrir embætti landlæknis.
Sigurður Oddsson, hönnunarstjóri Aton, varð mjög hissa þegar hann sá nýja fæðupýramída bandaríkjanna og hvað útlit hans, áferð og teikningar voru líkar fæðuhringnum sem Aton gerði fyrir embætti landlæknis. Vísir/Vilhelm/Landlæknir

Ríkisstjórn Bandaríkjanna kynnti nýjan fæðupýramída í byrjun árs þar sem honum var snúið á hvolf og aukin áhersla lögð á prótín og fitu. Útlit og hönnun pýramídans er keimlík fæðuhring sem hönnunarstofan Aton gerði fyrir embætti landlæknis í fyrra. Hönnunarstjóri Aton segir líkindin töluverð en lítið sé við því að gera.

Grafíski hönnuðurinn Armin Vit tók fyrir hönnun Aton á fæðuhringnum í grein sem birtist á mörkunarsíðunni Brand New þann 12. janúar. 

Þar er sérstaklega vakin athygli á líkindum hönnunar fæðuhringsins íslenska við nýja fæðupýramída bandarísku ríkisstjórnarinnar sem heilbrigðisráðherrann Robert Kennedy kynnti undir nafninu „Alvöru matur“ (e. Real Food) í byrjun árs.

Bandaríski pýramídinn leggur áherslu á stærri skammta af prótíni, feitri mjólkurvöru, ávöxtum og grænmeti en dregur er úr umfangi kornmetis auk þess sem varað er gegn unni matvöru og sykri. Íslenski fæðuhringurinn gengur út á fjölbreytta fæðu með áherslu á mat úr jurtaríkinu. 

En það er ekki innihald ráðlegginganna sem er til umfjöllunar hjá Brand New heldur útlitið og hönnunin.

Útþynnt útgáfa af íslensku teikningunum

„Áður en farið er í þessa útfærslu er örugglega best að ávarpa fílinn í herberginu: Íslensku fæðuráðleggingarnar og ráðleggingarnar fyrir Bandaríkjamenn eru mjög líkar. Tilviljun? Mögulega,“ skrifar Armin Vit í umfjöllun sinni á Brand New.

Telur hann að bandarísku viðmiðin séu „innblásin“ af þeim íslensku sem komu út í mars 2025, rétt áður en var tilkynnt um að National Design Studio, sem er hluti af ríkisstofnuninni DOGE, myndi sjá um að endurhanna pýramídann bandaríska.

Samanburður á fæðuhring embættis landlæknis og fæðupýramída bandaríska heilbrigðisráðuneytisins.

„Fyrir utan tímasetninguna eru teikningar bandarísku útgáfunnar útþynnt gerð af íslensku teikningunum, sem voru handteiknaðar af Fanny Gentle. Það spilar inn í samsæriskenningu mína um að verk Fannyar hafi verið sett inn í gervigreindina sem gaf frá sér mun verri og ósamkvæmari niðurstöður,“ skrifar hann í umfjölluninni. 

Hann tekur þó fram að hann sé ekki stærsti aðdáandi bandarísku ríkisstjórnarinnar.

„Það eina sem ég get fullyrt með vissu er að hönnun Aton fyrir embætti landlæknis er mögnuð,“ skrifar hann í umfjölluninni. Teikningarnar séu fallegar og fullar af skemmtilegum smáatriðum.

Trúði ekki líkindunum

Blaðamaður heyrði í Sigurði Oddssyni, hönnunarstjóra Aton, sem fór fyrir teyminu sem hannaði útlit nýju fæðuráðlegginganna frá landlækni. Sigurður viðurkenndi að það hefði komið honum á óvart að sjá hvað bandaríska hönnunin væri áþekk þeirri íslensku.

„Ég fékk alveg gæsahúð þegar ég sá þetta, ég trúði þessu ekki,“ segir Sigurður um viðbrögð sín við að sjá bandarísku útgáfuna í fyrsta skiptið. Hann gæti ekki fullyrt neitt um það hvort hönnunin væri stæling eða afrit.

„Þetta er ekki víst en það er svo margt sem er líkt,“ segir Sigurður. Fyrir utan líkindi aðalmyndarinnar séu smærri atriði og kynningarefni keimlíkt. Sigurður tók því saman nokkur samanburðardæmi til að sjá betur líkindin hlið við hlið.

Mynd sem Sigurður tók í leikskóla sonar síns og kynningarmynd frá bandaríska heilbrigðisráðuneytinu.
Drekkum vatn; borðaðu alvöru steik.

„Mér finnst þetta aðallega bara fyndið, það er ekki eins og við séum að fara að gera eitthvað í þessu,“ segir Sigurður um möguleg viðbrögð Aton í málinu.

Erfitt er að sanna kenninguna um að bandaríski fæðupýramídínn sé gerður með gervigreind. Tilkoma gervigreindarinnar hefur hins auðveldað fólki til muna að stæla hönnun annarra og er farin að sjást meira og meira alls staðar. Hvað gervigreindina varðar telur Sigurður að fólk vilji áfram sjá manngerða hluti.

Fjölbreytt fæða eða alvöru matur.

„Það eru allir að fá að prófa þetta einu sinni til að brenna sig á bakslaginu, stærstu fyrirtæki heims eru búin að gera þetta, Coke, MacDonalds og fleiri. Prófa þetta einu sinni og finna strax fyrir miklu bakslagi svo þau eru væntanlega ekki að fara að gera þetta aftur, þau þurfa að ganga of langt til að finna hvar mörkin liggja hjá fólki,“ segir Sigurður.

Auglýsingastofur og stórfyrirtæki hafi þannig fundið að þau ættu ekki að nota gervigreindina til að gera heilar auglýsingar frá grunni heldur sem lítið verkfæri, fólk vilji finna fyrir hinu mannlega í auglýsingum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.