Erlent

Small­vil­le-leik­kona opnar sig í fyrsta sinn um að­komu sína að kyn­lífssér­trúarsöfnuðinum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Allison Mack losnaði úr fangelsi fyrir tveimur árum og ræður nú í fyrsta sinn aðkomu sína að söfnuðinum, dóminn og fangelsisvistina.
Allison Mack losnaði úr fangelsi fyrir tveimur árum og ræður nú í fyrsta sinn aðkomu sína að söfnuðinum, dóminn og fangelsisvistina. Vísir/EPA

Allison Mack, sem dæmd var í þriggja ára fangelsi fyrir aðkomu hennar að kynlífs-sértrúarsöfnuðinum Nxivm, (borið fram Nexium) hefur nú tjáð sig í fyrsta sinn um aðkomu sína að söfnuðinum, hvernig hún plataði aðrar konur til að taka þátt og dóm sinn. Í nýrri sjö þátta hlaðvarpsseríu segist Mack ekki álíta sjálfa sig saklausa. Hún hafi treyst Keith Raniere, leiðtoga söfnuðarins, fullkomlega. Hún var hluti af söfnuðinum í tólf ár.

Mack var áður leikkona og var þekkt fyrir leik sinn sem Chloe Sullivan í þáttunum Smallville sem voru í sýningu frá 2001 til 2011. Hlaðvarpsserían Allison after Nxivm var frumsýnd í gær. Þættirnir eru framleiddir af CBC og þeim stýrt af Natalie Robehmed. Fjallað er um þættina hér, hér og hér. 

Mack var dæmd árið 2021 til þriggja ára dóms fyrir aðkomu sína að sértrúarsöfnuðinum en losnaði úr fangelsi fyrir tveimur árum. Hún hlaut dóm fyrir fjárkúgun en játaði að hafa hjálpað leiðtoga hópsins að finna konur sem hann misnotaði kynferðislega. Dómur hennar var mildaður því hún aðstoðaði við að sakfella aðra fyrir aðkomu þeirra að söfnuðinum.

Fyrst var fjallað um málið í New York Times árið 2017. Stuttu síðar var forsprakki NXIVM, Keith Raniere, handtekinn í Mexíkó. Hann var sakfelldur árið 2019 og afplánar nú 120 ára fangelsisdóm fyrir mansal, fjársvik og ýmislegt annað. Fjallað var um söfnuðinn í heimildarþáttunum The Vow árið 2020 sem voru framleiddir af HBO.

Í hlaðvarpsþáttunum um Mack segir hún að Raniere hafi sannfært sig um að kynferðislegt samband við hana væri nauðsynlegt til að „lækna hana“. Hún hafi leitað til hans þegar hann var starfandi í New York til að fá aðstoð með kynhneigð sína og kynlíf eftir ábendingu frá leikkonunni Kristin Kreuk, sem einnig lék í Smallville.

„Ég sagði honum að það hefðu ákveðnir hlutir gerst þegar ég var barn sem voru ekki í lagi – og að ég gæti ekki tekist á við kynhneigð mína,“ segir Mack í hlaðvarpinu og að hún hafi skammast sín fyrir líkama sinn og kynhneigð sína. Hún segist ekki hafa vitað hvernig hún ætti að takast á við það og að hann hafi sagt henni að hann gæti hjálpað henni.

Hann hafi sagt henni að til þess að lækna hana yrði hann að sofa hjá henni. Hún segir í hlaðvarpinu að henni hafi þótt það skrítið en á sama tíma hafi henni þótt vænt um að geta trúað því loks að hún myndi fá raunverulega aðstoð.

Talið er að Raniere hafi haft um fimmtán til tuttugu konur sem stunduðu kynlíf með honum eftir hans hentisemi, og var þeim meinað að ræða samband sitt við leiðtogann við aðra. Þá var þeim skylt að taka nektarmyndir af sér sem gat verið lekið ef þær fóru gegn vilja Raniere. Þá voru þær brennimerktar upphafsstöfum hans.

Í réttarhöldunum kom einnig fram að Mack hafði sjálf „þræla“ sem hún stjórnaði og sagði til um hvenær þær mættu borða og hvað þær mættu borða. Hún hvatti konur til að leita til Raniere til að fá sömu aðstoð og hún fékk. Það endaði yfirleitt með því að Raniere nauðgaði þeim. Áður en dómur féll bað hún konurnar afsökunar í bréfi.

Óvænt vinátta við fyrrverandi nýnasista

Þættirnir eru í heildina sjö og fjalla um það hver hún er, hvernig Raniere sannfærði hana um að vera með í söfnuðinum, hvernig hún breyttist á þeim tólf árum sem hún tilheyrði söfnuðinum og um það þegar hún var handtekin og svo fangelsuð í kjölfarið. Í þeim er einnig rætt við Lauren Salzman, dóttir annars stofnanda söfnuðarins, sem tilheyrði honum í tuttugu ár. Að lokum er farið yfir það hvernig óvænt vinátta við nýnasista sem hafði snúið við bakinu við nasisma hjálpaði Mack.

„Þegar Allison íhugar hlutverk sitt í NXIVM og skaðann sem hún olli, stendur hún frammi fyrir spurningunni um hvort hún geti treyst sjálfri sér aftur. Natalie fylgir Allison á húðflúrstofu í austurhluta Los Angeles, þar sem Allison lætur hylja brennimerkið sitt og breytir þannig eignarmerki í tákn endurnýjunar,“ segir í lýsingu fyrir síðasta þátt seríunnar.


Tengdar fréttir

Flúðu trúarof­beldi í sér­trúar­söfnuðum á Ís­landi

Mörg þúsund Íslendingar hafa tilheyrt sértrúarsöfnuðum. Ein sterkustu einkenni hópanna eru strangt skipulag, mikið kennivald og félagslegt taumhald sem er vaktað af valdamiklum leiðtoga. Fólk sem hættir í söfnuðunum upplifir flest depurð, kvíða og áfallastreitu eftir dvölina og mörg hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi. Í Kompás köfum við ofan í hugtakið trúarofbeldi og ræðum við fyrrverandi meðlimi sértrúarsafnaða.

Meðstofnandi Nxivm á leið í fangelsi

Nancy Salzman, annar stofnandi kynlífs-sértrúarsafnaðarins Nxivm í Bandaríkjunum, hefur verið dæmd í þriggja og hálfs árs fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×