Erlent

Trump veitir Ung­verjum undan­þágu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Orbán forsætisráðherra fundaði með Trump í Hvíta húsinu í dag.
Orbán forsætisráðherra fundaði með Trump í Hvíta húsinu í dag. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert Ungverja undanskilda refsiaðgerðum vegna kaupa á olíu frá Rússlandi, að sögn utanríkisráðherra Ungverjalands. Trump fundaði með Viktor Orbán forsætisráðherra í Hvíta húsinu í dag.

Greint var frá því fyrr í kvöld að Trump hefði sagst íhuga að veita slíka undanþágu á grundvelli þess að Ungverjar teldu sig ekki hafa aðgang að olíu og jarðgasi annars staðar frá vegna legu landsins. Nefnilega að það liggi ekki að sjó og verði því að reiða sig á landflutninga frá Rússlandi.

Péter Szijjártó utanríkisráðherra Ungverjalands tilkynnti um undanþáguna á samfélagsmiðlum í kvöld í kjölfar fundar Trump og Orbán.

„Bandaríkin hafa veitt Ungverjalandi fulla og ótakmarkaða undanþágu frá refsiaðgerðum á olíu- og gaskaup. Við erum þakklát fyrir þessa ákvörðun sem tryggir orkuöryggi Ungverjalands,“ skrifaði hann á samfélagsmiðlinum X.

Bandaríkin beittu nýlega tvö stærstu olíufyrirtæki Rússlands, Rosneft og Lukoil, viðskiptaþvingunum í síðasta mánuði en þau hafa haldið áfram olíuflutningum til Ungverjalands sem er mjög háð rússnesku eldsneyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×