Viðskipti innlent

Segist ekki svindlari heldur vilja skrá sig í sögu­bækurnar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sergio Herrero er tvítugur og segist vilja hjálpa Íslendingum við að verða ríkir. Fólk hefur varað við starfsemi hans á netinu og sagt hana vera píramídasvindl, eitthvað sem Sergio þvertekur fyrir.
Sergio Herrero er tvítugur og segist vilja hjálpa Íslendingum við að verða ríkir. Fólk hefur varað við starfsemi hans á netinu og sagt hana vera píramídasvindl, eitthvað sem Sergio þvertekur fyrir.

Ungur íslenskur maður sem lofar þeim sem gera hann að læriföður sínum gulli og grænum skógum segist ekki reka píramídasvindl. Hann vilji einfaldlega skrá sig í sögubækurnar á Íslandi sem maðurinn sem bjargaði landinu. Nemendur greiða milljónir fyrir þjónustu hans.

Sergio Herrero Medina er tvítugur Íslendingur. Hann flutti hingað til lands frá Spáni þegar hann var sjö ára og hefur búið hér síðan þá. Sergio hefur birst mörgum síðustu vikur í auglýsingum á samfélagsmiðlum þar sem hann lýsir því fyrir fólki hvað hann hefur grætt mikinn pening í gegnum AI-partnering.

Hvað er AI-partnering?

AI-partnering mætti þýða sem gervigreindarsamstarf. Þú selur þjónustu, til dæmis aðstoð við markaðssetningu. Svo færðu gervigreind til að aðstoða þig við að búa til auglýsingar, ákveða hvenær á að birta auglýsinguna, greiningu á hvað virkar og hvað ekki og fleira í þeim dúr. Gervigreindin vinnur mest alla vinnuna en þú færð allar tekjurnar. 


„Ég breytti lífi mínu á einu og hálfu ári og ég er bara venjulegur gaur sem ákvað að „lock in“. Þú getur gert það líka,“ er yfirskrift eins myndbands sem hann birti á Facebook. Þetta er stef sem sést í flestum myndböndum hans. Ákveðir þú að gera breytingar á lífi þínu þá geti hann hjálpað þér að komast á réttan stað.  

Áhugaverður Zoom-fundur

Sergio hefur tvisvar boðið upp á Zoom-fyrirlestra þar sem fólk er hvatt til að bætast í hópinn og heyra hvernig hann fór að því að verða ríkur. Hundruð manns sóttu báða fundi en ekkert kostaði að fylgjast með. Fréttamaður sat slíkan þriggja tíma langa fund fimmtudagskvöldið 30. október. 

Fundurinn hófst á eins og hálfs tíma kynningu á hvað „venjulegt“ líf væri leiðinlegt. Stefið var að miklu leyti að fólk þyrfti að flýja kerfið eða matrix-ið, sem felur í sér þennan klassíska vinnudag frá níu til fimm. Meirihluti fundarins fór því í að sannfæra fólk um að þeirra biði betra líf, væri það til í að leggja vinnuna á sig. Það þyrfti jú að vera tilbúið að greiða eitthvað fyrir, enda væri það alls ekki ókeypis að verða ríkur. 

Hann sýndi hvað lífið væri gott hjá honum í Dubai, þar sem hann dvelur þessa dagana, og nokkrir í hans teymi töluðu einnig við hópinn. Þeir sögðu frá því hvernig þeir hefðu verið í erfiðri stöðu nokkrum vikum fyrr en eftir að Sergio gerðist lærifaðir þeirra hefði líf þeirra umturnast. Þeir sýndu dýra bíla sem þeir keyrðu um á en tóku vissulega fram að þeir ættu þá ekki heldur hefður verið teknir á leigu. Skilaboðin voru þau að ættir þú nægan pening gætir þú keyrt nýjan bíl í hverri viku og gist á nýjum stað í heiminum. 

Mér leið aldrei eins og verið væri að ljúga að mér, meira eins og að það sem þeir væru að lofa væri of gott til að vera satt. En að þeir virkilega trúðu því sjálfir að þetta væri möguleiki. 

Einhverjir fundargestir undir aldri

Um 300 manns voru á fundinum að sögn Sergios og 400 aðrir sem reyndu að komast inn en náðu því ekki. Hægt var að senda skilaboð á spjall fundarins og bað Sergio fólk reglulega að senda skilaboð þangað inn. Spamma töluna 1, eða bókstafinn W alla jafna. Að spamma töluna 1 er alla jafna gert til að stjórnandi geti kannað viðbrögð fólks og séð hversu margir eru virkir. W er mikið notað sem stytting á orðinu „win“ eða „sigur“. 

Ljóst var að þó nokkrir þeirra sem sóttu fundinn voru undir aldri. Þeir spurðu reglulega hvort þeir gætu verið með í teymi Sergios ef þeir væru ekki orðnir átján ára, spurning sem hann svaraði með því að foreldrar þeirra þyrftu að hafa samband. Þeir myndu þurfa að samþykkja og hvatti hann krakka til að útskýra hugmyndirnar fyrir þeim. 

@officialsergioherrero

$113k week as a 20 year old with AI Partnering.

♬ som original - SK Music🎧

Fundinum lauk á því að þeir sem hefðu áhuga á að læra meira um AI partnering gætu bókað einkafund með Sergio. Á þessum fundi myndi hann meta hvort fólk hefði rétta hugarfarið til að vera í hans hópi og til að fá að hafa hann sem læriföður. 

Viðskipta- og samskeppniseftirlit Bandaríkjanna, FTC, hefur varað við slíkum lærifeðraaðferðum og kallar þær svindl. Á vef eftirlitsins segir:

„Í svona svindli, er sú staðhæfing auglýst að þú getir grætt gríðarháar fjárhæðir með litla sem enga reynslu. Þeir segja að „sérfræðingar“ þeirra kenni þér „þrautreyndar aðferðir“ um hvernig eigi að búa til farsælt fyrirtæki á netinu.“

„Svindlararnir láta það hljóma þannig að það sé auðvelt að búa til fyrirtæki á netinu og græða pening. Þeir segja þér að fyrir réttu upphæðina geti þeir kennt þér hvernig á að gera það. Þetta er heillandi, en ekki satt. Hundruð þúsunda hafa fallið fyrir þessu og tapað þúsundum dollara til svindlara sem skilja þá eftir með ekki neitt nema skuld og brostna drauma.“

Svindlið er sagt náskylt píramídasvindli, þ.e. að þú eignast læriföður sem hvetur þig áfram til að gerast lærifaðir annarra. Svoleiðis gengur það koll af kolli. Peningarnir rata upp stigann en ekki niður.


Sölusímtal skömmu síðar

Tveimur dögum seinna hringdi í mig strákur sem er hluti af teyminu hans Sergios, en ég var þarna orðinn meðlimur að WhatsApp-hópi Sergios og gat teymið hringt í þá sem þar voru í gegnum forritið. Hann bauð mér á Zoom-fund þar sem farið væri yfir hvort ég gæti verið í þessum innri hring hans. Ég þáði fundarboðið en tilkynnti við upphaf fundar að ég væri fréttamaður sem væri að vinna að frétt um þetta mál.

Strákurinn sem ég ræddi við var mjög almennilegur og sagði mér frá þeim breytingum sem hefðu orðið á hans lífi við að kynnast Sergio. Hann vék sér ekki frá neinum þeim spurningum sem ég var með og svaraði þeim eins vel og hann gat. Stuttu síðar mætti Sergio sjálfur líka á fundinn. 

@officialsergioherrero

I didn’t want to hustle 16 hours a day just to be “successful.” That’s why I sold my 7-figure run rate agency and went all-in on the AI Partner Model. Now I work with just a handful of clients, make more money, and actually enjoy my life. Here’s the truth: AI does 90% of the heavy lifting. You don’t need to know everything or grind like crazy anymore. Beginners can start this TODAY. This shift changed everything for me, freedom, profit, and lifestyle. And it can do the same for you. Drop “AI” in the comments if you want me to send you a free training it.

♬ original sound - Officialsergioherrero

Sergio var einnig ótrúlega kurteis og líkt og á Zoom-fundinum stóra, þá leið mér aldrei eins og hann væri að ljúga að mér. Mér leið eins og hann trúði virkilega á það sem hann væri að gera. Hann sagðist sjálfur hafa fjárfest um þremur milljónum króna í læriföður og að hann væri ekki kominn á þann stað sem hann væri í dag án læriföðurins. 

Ég óskaði eftir viðtali, sem Sergio samþykkti. Hann óskaði eftir því að fá spurningarnar sendar og svara skriflega, sem ég samþykkti. 

Ekki í þessu fyrir peningana

Fyrsta spurning fjallaði um hvers vegna hann væri að kenna öðru fólki hvernig hann varð ríkur, þegar hann gæti einn setið á þessum aðferðum sem hann græðir svo mikið á. Hann segist geta lifað góðu lífi án þess að kenna fólki neitt, það er að hans helsta tekjulind sé ekki þetta lærifeðrakerfi. Hann geri þetta ekki fyrir peningana. 

„Markmiðið mitt er að hafa raunveruleg áhrif á Ísland, að hjálpa fólki að sleppa úr kerfinu og skapa sitt eigið frelsi. Ég vil að nafnið mitt verði hluti af sögunni hér — ekki vegna þess að ég græddi mikið, heldur vegna þess að ég hjálpaði hundruðum, jafnvel þúsundum, að gera það sama, og ekki bara það, það er nóg af peningum í heiminum fyrir alla að fá hluta af honum,“ segir Sergio. 

@officialsergioherrero

Comment “RICH” and I’ll send you a free training on how to make $20k/mo in 90 days

♬ original sound - Officialsergioherrero

Hann hafi sjálfur verið í níu til fimm vinnu og fattað að hann vildi ekki vera í þeim pakka. Sergio vissi að hann hefði mikinn metnað fyrir því að gera vel í lífinu og eftir að hafa prófað ýmislegt fann hann AI partnering. Hann hafði þá sjálfur borgað læriföður tæpar fjórar milljónir króna til að læra hvernig hann ætti að græða pening. 

Greiðir sínum læriföður enn

Sergio segist enn í dag greiða um 110 þúsund dollara, um fjórtán milljónir króna, á ári til lærifeðra sem hjálpa honum með næstu skref í sínu viðskiptalífi. 

„Ég trúi því að þú hættir aldrei að læra. Þú getur alltaf lært meira af einhverjum sem hugsar stærra en þú. Ég er þakklátur fyrir allt sem hann kenndi mér og er enn þá að kenna mér, og ekki bara það, ég er núna með tvo lærifeður, einn fyrir markaðssetningu og einn fyrir sölu. Ég mun alltaf standa við það að þegar þú hættir að læra, þá hættir þú að stækka,“ segir Sergio. 

Hér fyrir neðan má skoða síðuna hjá Sergio Tavarez, sem er lærifaðir nafna síns íslenska. 

Ekki læriföðursvindl

Sergio hafnar þeim ásökunum um að hann sé að svindla á fólki og að um sé að ræða einhvers konar píramídasvindl. 

„Ég skil af hverju fólk myndi segja það, málið er að flestir sem selja mentoring eru ekki einu sinni að gera það sem þau eru að kenna. Munurinn á mér og þeim er að ég kenni AI partnering en það er líka það sem ég geri daglega. Þannig ég er að kenna út frá eigin reynslu og frá því sem ég læri daglega í mínu eigin AI partnering fyrirtæki,“ segir Sergio. 

Of gott til að vera satt?

Þetta hljómar vel, að græða mörg hundruð þúsund krónur, jafnvel milljónir, á mánuði fyrir vinnu sem gervigreindin gerir fyrir þig. Er þetta of gott til að vera satt?

„Nei. En það er ólíkt öllu sem fólk er vant. Flestir halda að það þurfi að eyða mörgum árum í að læra forritun eða í að byggja fyrirtæki frá grunni. Ég kenni fólki hvernig það getur notað gervigreind þannig það þurfi ekki að læra allt upp á tíu frá byrjun. Það er einfalt, en ekki auðvelt — þú þarft að mæta, læra og framkvæma. Þetta er samt ekki ég að afhenda þér peninga, heldur þarft þú að skila inn vinnunni sem þér er kennt í hópnum svo þú náir árangri,“ segir Sergio. 

Hann vill ekki gefa upp nákvæmlega hvað það kostar að vera með hann sem læriföður, en þær tölur sem fréttastofa hefur heyrt eru á bilinu 200 þúsund til 1,2 milljónir. Sergio segist hafa velt yfir hundrað milljónum á síðusta rúma árinu og grætt um fimmtíu til sextíu milljónir króna. Meirihluti teknanna komi úr AI partnering en ekki læriföðurbransanum. 

„Ég fæ hlutdeild í hagnaði fyrirtækja og byggi langtímasambönd. Hluti kemur frá námskeiðum og mentoring, en það er meira leið til að deila því sem ég hef lært, ekki aðaltekjulindin,“ segir Sergio. 

Vill ekki börn í hópinn

Sergio hefur verið sakaður um að reyna að fá einstaklinga undir átján ára aldri til að taka þátt í námskeiðum hjá honum. Líkt og kom fram hér að ofan var fjöldi fólks í upphaflega Zoom-símtalinu undir aldri en Sergio segist aldrei myndu taka pening af börnum. 

„Ég hef aldrei, og myndi aldrei, reyna að selja eða tala við börn. Það hafa verið sögur á netinu sem eru ekki sannar, jafnvel fólk að segja að ég hafi talað við 12 ára — sem er bara fáránlegt. Ég vinn eingöngu með fullorðnum einstaklingum sem hafa vilja og þroska til að læra viðskipti. Það er sorglegt að fólk þurfi að ljúga til að fá athygli, en ég veit að sannleikurinn kemur alltaf í ljós,“ segir Sergio. 

Telur Sergio svindlara

Ásmundur Ari Pálsson er 21 árs og er virkur á erlendum hlutabréfamarkaði. Hann hefur deilt visku sinni á þeim mörkuðum með fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum og slegið þar í gegn. Hann hefur sjálfur veitt þeim sem vilja ráð hvernig hægt sé að græða á þeim markaði og rukkaði hann fyrir það upphaflega eins og Sergio gerir, en segist hafa hætt því þar sem honum þótti ekki við hæfi að fólk borgaði honum fyrir hjálpina. Myndi fólk leggja vinnuna á sig gæti það náð árangri og þætti honum það nóg. 

Nýlega fóru honum að berast spurningar frá fylgjendum sínum um Sergio og hvort hans starfsemi væri svindl eða ekki. Fólk hafði áhuga á að taka þátt í verkefnum hans en hafði einhverjar efasemdir. Ásmundur segir nokkrar mjög sterkar vísbendingar um að Sergio sé að svindla á fólki. 

„Ég flokka þetta sem píramídasvindl. Aðalástæðan er að allir í kringum hann eru að gera það nákvæmlega sama. Þeir eru reyndar ekki með þessa auglýsingaherferð, en þeir gera allt í gegnum einkaskilaboð,“ segir Ásmundur og vísar þar til þess að hópur manna, nemar sem hafa greitt honum fyrir aðstoð, í kringum Sergio sé með honum í að senda skilaboð á fólk sem það vill að kaupi námskeið eða fræðslu. 

@asmundurari Skítamix part 2 um Sergio Herrero. Varið varlega! Þið eruð bezt(Afsaka þetta laga myndband) #gottaðpissa #íslenskt #fyrirþig #zyxcba #fyp ♬ original sound - GottAðPissa

Sæki á einstaklinga en ekki fyrirtæki

Væri allt eðlilegt myndu þessir nemar reyna að selja fyrirtækjum þjónustu sína með AI partnering, en svo sé ekki raunin. 

„Þeir eru að sækja á annað fólk til þess að fá það til að borga sér fyrir þessa kennslu. Það er eitthvað sem truflar mig svakalega og bendir til þess að þeir geri þetta ekki fyrir fyrirtækin heldur til þess að ná til þessa fólks sem vill vera með í þessu. Sem heldur að þetta sé ekta,“ segir Ásmundur.

Hægt að græða, en það þurfi visku

Að starfa við markaðsstörf með aðstoð gervigreindar, líkt og Sergio gefur sig út fyrir að gera, sé alls ekki slæmt. Fólk geti grætt á því kunni það á markaðinn. Hins vegar þurfi til þess mikla reynslu og mikinn skilning. Margra ára menntun jafnvel. Það sé ekki eitthvað sem hægt sé að læra á einni viku. Þá segist Ásmundur ekki vita nákvæmlega hvað Sergio gerir með AI partnering, þar sem hann sé mjög loðinn í svörum þegar hann er spurður að því. 

„Mér sýnist fólk ekki vita hvað hann er að selja. Hann stiklar á stóru þegar hann er að tala um hvað hann gerir og hvað fólk fær út úr þessu. Ég fékk aðgang að myndbandi sem hann selur aðgang að. Þar segir hann heldur ekki neitt frá því hvað hann er að selja. Það sem hann hefur sagt er að fyrir þessa greiðslu, sama hversu há hún væri, er að þú munt fá fund þar sem hann er að hjálpa þér eða reynir að ýta þér í rétta átt eða hvað sem er. Þú færð einn vídeófund í hverri viku. Svo færðu aðgang að spjallhópi,“ segir Ásmundur. 

Ekki hægt að lofa árangri

Stærsta vandamálið við auglýsingar Sergios sé að hann lofar árangri. Ásmundur segir aldrei mega trúa þeim sem tala svoleiðis, það séu nánast án undantekninga svindlarar, þar sem ekki sé hægt að lofa árangri. 

„Það er ekkert „get rich quick“, nema það sé ólöglegt.“

@asmundurari

Sergio Herraro. Scammer?

♬ original sound - GottAðPissa

Ásmundur segist hafa rætt við nokkra sem höfðu verið í samskiptum við Sergio, þar á meðal einn sem er undir átján ára aldri. Strákurinn hafi sagt við sig að Sergio hafi reynt að rukka sig um sex hundruð þúsund krónur. Hann hafi viljað hugsa málið og Sergio þó sagt honum að hann gæti fryst verðið myndi hann borga fimmtíu þúsund krónur. Ef ekki myndi verðið vera mun hærra þegar hann væri búinn að hugsa málið. 

Rætt við fundargesti

Nútíminn hefur rætt við nokkra þeirra sem sóttu þennan Zoom-fund sem fjallað var um fyrr í fréttinni. Þeir sögðu upplýsingar hafa verið af skornum skammti þegar Sergio hafi verið spurður dýpra um ákveðna þætti viðskipta sinna. 

„Meirihluti tímans fór í að Sergio talaði um lífssöguna sína og hvernig hann slapp úr kerfinu. Hann var mjög karismatískur og notaði mikið af setningum eins og „Ef þú sefur á þessu, þá ertu að segja við sjálfan þig að þú viljir vera blankur“. Þetta var sálfræðilegur þrýstingur allan tímann,“ sagði einn þeirra í samtali við Nútímann. 

Annar sagðist hafa verið hent út eftir að hafa krafið Sergio um bankayfirlit um það sem hann væri að græða. 

Þá hafa umræður um Sergio og hans starfsemi sprottið upp á ýmsum spjallhópum, þar á meðal Beauty Tips, Pabbatips og Fjármálatips. Þar vara flestir við hans starfsemi. 

Veistu meira um málið eða ertu með fréttnæma ábendingu? Ekki hika við að senda okkur fréttaskot, nafnlaust eða undir nafni, með því að smella hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×