Erlent

Í­trekar hótanir sínar og hvetur í­búa til að kjósa Cuomo

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump er meinilla við Mamdani og hvetur stuðningsmenn sína til að velja heldur Cuomo.
Trump er meinilla við Mamdani og hvetur stuðningsmenn sína til að velja heldur Cuomo. Getty

Íbúar New York ganga að kjörborðinu í dag til að velja sér nýjan borgarstjóra. Skoðanakannanir benda til þess að Demókratinn Zohran Mamdani muni bera sigur úr býtum, þrátt fyrir ítrekaðar hótanir Bandaríkjaforseta gegn honum.

Mamdani hefur verið að mælast með yfir tíu prósent forskot á Andrew Cuomo, fyrrverandi ríkisstjóra, sem fer fram sem óháður. Þá kemur Repúblikaninn Curtis Sliwa nokkuð langt þar á eftir, með í kringum 15 prósent stuðning.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði hótanir sínar gegn Mamdani og stuðningsmönnum hans í gærkvöldi og sagðist ekki myndu láta nema lágmarks upphæðir af opinberu fé renna til New York ef „kommúnistinn“ Mamdani yrði borgarstjóri.

Annað væri enda að kasta fé á glæ.

Í færslu á Truth Social sagði Repúblikaninn Trump einnig að atkvæði til handa flokksbróður sínum, Sliwa, væri atkvæði í þágu Mamdani, og hvatti stuðningsmenn sína til að velja heldur Cuomo, sem laut í lægra haldi fyrir Mamdani í forvali Demókrataflokksins.

Ef marka má skoðanakannanir er það í raun eina leið Repúblikana til að koma í veg fyrir sigur Mamdani, það er að segja að kjósa Cuomo í stað Sliwa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×