Fótbolti

Fyrrum þjálfari ársins notaði gervi­greindina til að hjálpa sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laura Harvey er þjálfari Seattle Reign og hér er mikið í gangi hjá henni á hliðarlínunni.
Laura Harvey er þjálfari Seattle Reign og hér er mikið í gangi hjá henni á hliðarlínunni. Getty/Alika Jenner

Laura Harvey er einn sigursælasti þjálfari bandarísku kvennadeildarinnar í fótbolta undanfarin ár og hún er óhrædd við að nýta sér nýjustu tækni til að ná sem bestum árangri.

Harvey, sem er aðalþjálfari Seattle Reign FC, sagðist hafa notað gervigreindarforritið ChatGPT til að fá ráðleggingar um leikaðferðir á síðasta undirbúningstímabili, sem að lokum leiddi til þess að hún og þjálfarateymi hennar prófuðu nýja uppstillingu með fimm varnarmönnum.

Þrisvar unnið titilinn

Harvey hefur þrisvar sinnum unnið NWSL-skjöldinn og þrisvar sinnum verið valin þjálfari ársins í NWSL. Hún talaði um nytsemi gervigreindarinnar í hlaðvarpinu „Soccerish Podcast“

Hún hefði hvorki spilað með fimm manna varnarlínu áður né rannsakað hana ítarlega og var í fyrstu ekki hrifin af svari gervigreindarinnar um einkenni eigin liðs. Hún hélt þó áfram að spyrja almennari spurninga um NWSL-deildina.

„Og svo sló ég inn: ‚Hvaða uppstillingu ætti maður að nota til að sigra lið í NWSL?‘“ sagði Harvey í viðtali við „Soccerish Podcast“ sem birt var á fimmtudaginn.

„Og það taldi upp öll liðin í deildinni og hvaða uppstillingu maður ætti að nota.

Ég er ekki að grínast

Og fyrir tvö lið – ég ætla ekki að segja hver þau eru, því þá vita þau það – sagði það: ‚Þú ættir að spila með fimm manna varnarlínu.‘ Svo ég gerði það. Í alvöru, það var ástæðan fyrir því að ég gerði það. Ég hugsaði með mér: ‚Hmm, við skulum prófa.‘ Þetta var snemma á tímabilinu. Og ég sagði við þjálfarateymið: ‚Ég er ekki að grínast, þetta er það sem ég gerði.“ Og þau sögðu: „Ha, áhugavert.““

Þjálfarateymið rannsakaði uppstillinguna og kannaði hana ofan í kjölinn til að sjá hvernig hún gæti hentað liðinu.

„Okkur leist vel á hana. Og hún virkaði – við unnum leikinn.“ Harvey vildi ekki gefa upp á móti hvaða andstæðingi hún var að prófa uppstillinguna, en svaraði spurningu um hvort það hefði verið Portland Thorns með því að segja að svo væri ekki, „heldur eitt af þeim liðum sem eru virkilega góð.“

Seattle er nú í fjórða sæti NWSL-deildarinnar og hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppninni fyrir síðustu umferð deildarkeppninnar á sunnudag. Á síðasta ári endaði Reign í 13. sæti af 14 liðum í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×