Innlent

Hand­tóku menn á tvítugs­aldri vegna stór­felldrar fölsunar raf­rænna skil­ríkja

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögreglan biður forráðamenn ungmenna um að ræða við börn sín. 
Lögreglan biður forráðamenn ungmenna um að ræða við börn sín.  Vísir/vilhelm

Tveir karlmenn á tvítugsaldri voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu í gærdag í tengslum við rannsókn á fölsuðum rafrænum skilríkjum. Farið var í húsleitir og eru mennirnir grunaðir um að hafa selt töluverðan fjölda falsaðra skilríkja til ólögráða ungmenna, að sögn lögreglu. 

Var þeirri aðferð beitt að fæðingarári í kennitölu kaupenda var breytt inn á „mínum síðum“ á Ísland.is með þeim hætti að ungmennin virtust vera orðin lögráða eða með aldur til að versla áfengi. Rannsókn bendi til að mörg hundruð ungmenni eigi hlut að máli. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem mælist til þess að foreldrar ræði við börn sín um alvarleika þess að framvísa fölsuðum skilríkjum. Slíkt falli undir ákvæði hegningarlaga um skjalafals.

„Þá vill lögregla beina því til allra söluaðila ávanabindandi efna, hvort heldur sem er áfengis eða nikótíns, bæði í verslunum og vínveitingastöðum, að sú leið að skoða eingöngu Ísland.is vafrasíðu sé ekki örugg.“

„Lögreglan ítrekar að nauðsynlegt er að söluaðilar skoði skilríki viðskiptavina í island.is appinu eða óski eftir staðfestingu á aldri viðkomandi með framvísun gildra hefðbundinna persónuskilríkja s.s. nafnskírteinis, ökuskírteinis eða vegabréfs.“

Einnig bendir lögregla á að hægt sé að sannreyna skilríki í Ísland.is appinu. „Það má finna efst í hægra horni í flipanum „skírteini“. Þá opnast gluggi þar sem skanna má kóða sem finna má neðst í skírteininu og koma þá upplýsingar um hvort skírteinið sé gilt eða ekki.“

Í Ísland.is appinu má finna valmöguleika til að skanna og sannreyna rafræn skilríki. Lögreglan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×