Sport

Gaf öllum liðsfélögunum iPhone til að sleppa við að syngja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Modric er á sínu fyrsta tímabili með AC Milan eftir að hafa spilað í þrettán ár með Real Madrid.
Luka Modric er á sínu fyrsta tímabili með AC Milan eftir að hafa spilað í þrettán ár með Real Madrid. Getty/Marco Luzzani

Króatinn Luka Modric er í hópi bestu knattspyrnumanna sinnar kynslóðar en hann var busi í haust. Nýliðinn hjá AC Milan vildi þó alls ekki syngja fyrir liðfélaga sína.

Í fótboltaliðum er oft hefð fyrir busun þar sem nýir leikmenn taka lagið fyrir nýju liðsfélagana.

Það er langt síðan þessi fertugi Króati var nýr hjá liði enda búinn að spila með Real Madrid í þrettán ár og með króatíska landsliðinu í nítján ár.

Modric vildi alls ekki syngja og fann leið til að losna við það.

Til að forðast söng í klefanum þá gaf hann öllum leikmönnum AC Milan iPhone-síma í ágúst. Þetta staðfesti argentínski liðsfélagi hans, Santiago Gimenez, í beinni útsendingu á Tiktok.

„Þegar nýr leikmaður kemur til félags syngur hann venjulega fyrir framan liðsfélaga sína. Í stað þess að syngja ákvað hann að kaupa öllum síma,“ segir hinn 24 ára gamli Gimenez samkvæmt frétt hjá Fotbollskanalen.

Luka Modric hefur spilað sjö leiki með AC Milan í Seríu A á þessu tímabili og er með eitt mark og eina stoðsendingu í þeim.

Samningur hans við Mílanófélagið gildir til 30. júní 2027.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×