Fótbolti

Sjáðu öll mörkin: Neitaði að fagna í sýningu Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Dominik Szoboszlai fagnar marki sínu gegn Frankfurt í gær.
Dominik Szoboszlai fagnar marki sínu gegn Frankfurt í gær. Getty/Rene Nijhuis

Liverpool og Chelsea unnu bæði 5-1 stórsigra í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í gærkvöld. Bayern skoraði fjögur gegn Club Brugge og Real Madrid hafði betur gegn Juventus. Öll mörkin má sjá á Vísi.

Liverpool lenti undir gegn Frankfurt í Þýskalandi í gærkvöld en náði samt að vinna 5-1 sigur. Hugo Ekitike jafnaði metin eftir stungusendingu Andy Robertson og sprett frá miðlínu en neitaði að fagna gegn sínu gamla liði.

Miðverðirnir Virgil van Dijk og Ibrahima Konaté skoruðu góð skallamörk og Cody Gakpo og Dominik Szoboszlai bættu svo við mörkum.

Ajax missti Kenneth Taylor af velli með rautt spjald snemma leiks gegn Chelsea, í leik þar sem dómarinn hafði í nógu að snúast. Þrjú mörk komu af vítapunktinum, í 5-1 sigri Chelsea-manna.

Monaco og Tottenham gerðu markalaust jafntefli, sem og Atalanta og Slavia Prag.

Hinn 17 ára Lennart Karl skoraði fyrsta mark Bayern í 4-0 sigrinum gegn Club Brugge. Fyrrverandi leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni skoruðu hin þrjú, þeir Harry Kane, Luis Diaz og Nicolas Jackson.

Jude Bellingham skoraði eina markið þegar stórveldin Real Madrid og Juventus mættust á Spáni, þegar hann fylgdi á eftir skoti Vinicius Junior.

Loks vann Sporting 2-1 sigur gegn Marseille og Galatasaray hafði betur gegn Bodö/Glimt, 3-1, þar sem Norðmennirnir gerðu sig ítrekað seka um slæm mistök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×