Íslenski boltinn

„Veistu hvað leik­maðurinn sagði við mig?“

Sindri Sverrisson skrifar
Þorlákur Árnason var allt annað en sáttur við vinnubrögð Arnars Þórs Stefánssonar eftir að hann lét reka Þorlák af velli.
Þorlákur Árnason var allt annað en sáttur við vinnubrögð Arnars Þórs Stefánssonar eftir að hann lét reka Þorlák af velli. Sýn Sport

Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, verður í leikbanni í lokaumferð Bestu deildarinnar í fótbolta vegna rauða spjaldsins sem hann fékk á leiknum við KR á sunnudaginn. Sérfræðingar Stúkunnar heyrðu þó ekkert sem þeir töldu réttlæta brottrekstur Þorláks.

Rauða spjaldið og aðdragandi þess var til umræðu í frábærum þætti af Stúkunni á mánudagskvöld og má heyra umræðuna og köll manna á vellinum hér að neðan.

Klippa: Stúkan - Þorlákur hneykslaður eftir rautt spjald

Þorlákur fékk munnlega viðvörun á 67. mínútu leiksins eftir köll sín þegar KR-ingurinn Guðmundur Andri Tryggvason lá á vellinum.

„Í guðanna bænum stattu í fæturna,“ heyrðist kallað og í kjölfarið fór dómarinn Helgi Mikael Jónasson að Þorláki og varaði hann við:

„Annað svona og þá ferðu upp í stúku. Ég ætlast til virðingar gagnvart mér og öðrum. Hættu!“

„Má ég ekki tala við þig? Af hverju má ég ekki tala við dómarann?“ spurði Þorlákur og fékk þau svör frá varadómaranum Arnari Þór Stefánssyni að hann væri löngu kominn yfir línuna.

Í kjölfarið virðist Guðmundur Andri hafa látið ljót orð falla í garð Þorláks en það endaði þó með því að Arnar kallaði á Helga Mikael og lét reka Þorlák af velli.

Þorláki sárnaði greinilega brottreksturinn og spurði hann Arnar ítrekað: „Veistu hvað leikmaðurinn sagði við mig? Heyrðiru hvað hann sagði við mig?“

Baldur Sigurðsson sagði í Stúkunni erfitt að vita hvað valdið hefði rauða spjaldinu:

„Við alla vega heyrum hann ekki segja neitt ljótt sem að verðskuldar beint rautt spjald. Það virðist bara vera að Arnar hafi bara fengið nóg af honum tala, og það hafi verðskuldað beint rautt. Hann fékk ekki einu sinni gult til viðvörunar,“ sagði Baldur en umræðuna og atburðarásina á Meistaravöllum má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×