Íslenski boltinn

Hall­dór út og Ólafur Ingi inn hjá Breiðabliki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Halldór Árnason hefur verið látinn taka pokann sinn hjá Breiðabliki.
Halldór Árnason hefur verið látinn taka pokann sinn hjá Breiðabliki. vísir/diego

Breiðablik hefur sagt Halldóri Árnasyni upp störfum sem þjálfara karlaliðs félagsins. Ólafur Ingi Skúlason tekur við af honum.

Í dag hefur verið rætt um mögulegar breytingar á þjálfaramálum Breiðabliks og félagið hefur nú staðfest þær.

KSÍ hefur einnig staðfest Ólafur Ingi hafi látið af störfum hjá sambandinu. Hann var þjálfari U-21 árs landsliðs karla.

Halldór stýrði Breiðabliki í síðasta sinn þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Íslandsmeisturum Víkings, 1-2, í næstsíðustu umferð Bestu deildar karla á laugardaginn. Vegna úrslitanna eru möguleikar Blika á að komast í Evrópukeppni á næsta tímabili ekki í þeirra höndum.

Halldór tók til starfa hjá Breiðabliki haustið 2019, sem aðstoðarmaður Óskars Hrafns Þorvaldssonar. Þeir störfuðu áður saman hjá Gróttu.

Halldór tók við Breiðabliki haustið 2023 og stýrði liðinu í síðustu fjórum leikjum þess í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Undir stjórn Halldórs urðu Blikar Íslandsmeistarar í fyrra eftir sigur á Víkingum, 0-3, í hreinum úrslitaleik um titilinn.

Breiðablik byrjaði þetta tímabil ágætlega en hefur aðeins unnið einn af síðustu ellefu deildarleikjum sínum. Blikar komust þó í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í annað sinn.

Halldór skrifaði undir nýjan samning við Breiðablik um miðjan ágúst. Hann gilti til 2028. „Það er mikil ánægja og gleði með störf hans og þann metnað sem Halldór hefur fyrir meistaraflokki karla og félaginu í heild sinni. Að tryggja áframhaldandi störf hans hjá Breiðabliki er mikilvægur hluti af áframhaldandi framgangi og uppbyggingu Knattspyrnudeildar Breiðabliks,“ sagði meðal annars í tilkynningu Breiðabliks.

Breiðablik tekur á móti KuPS frá Finnlandi í Sambandsdeildinni á fimmtudaginn. Á sunnudaginn sækja Blikar svo Stjörnumenn heim í lokaumferð Bestu deildarinnar. Ef Stjarnan fær stig gegn Fram í kvöld eru möguleikar Breiðabliks á að ná Evrópusæti úr sögunni.

Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, vildi ekki tjá sig frekar um þjálfaraskiptin þegar íþróttadeild leitaði eftir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×